Var fyrsti bíllinn kanadískur?

Gufubíll Taylors frá 1867.
Gufubíll Taylors frá 1867.

Yfirleitt er það Þjóðverjinn Karl Benz sem er titlaður faðir bílsins. En ef til vill á Kanadamaðurinn Henry Seth Taylor þá nafnbót frekar skilda?

Benz sótti um einkaleyfi fyrir sinn bíl árið 1886, en Taylor smíðaði gufuknúinn bíl árið 1867, eða um tveimur áratugum áður en Benz kynnti brunahreyfilsbíl sinn.

Fjögur hjól en engar bremsur

Eins og gjarnan er með frumkvöðla og snillinga varð Taylor aðhlátursefni í heimabæ sínum, Stanstead í Quebec, þegar hann fór í fyrstu bíltúrana. Fólk taldi bílinn almennt „stórt og gagnslaust leikfang“, en það hindraði Taylor ekki í að keyra um og kynna uppfinningu sína.

Ólíkt bíl Benz, sem var þriggja hjóla, var gufubíllinn fjögurra hjóla. Einn galli var þó á gjöf Njarðar - Taylor hugkvæmdist nefnilega ekki að setja bremsur á bílinn, sem í raun var bara hestvagn með gufumótor.

Það kom honum í koll, því hann missti stjórn á bílnum á leið niður brekku, velti honum og braut öll hjólin (sem voru úr tré). 

Þegar bíllinn var gerður upp, á sjöunda áratug síðustu aldar, var bætt úr bremsuleysinu en að öðru leyti er bíllinn eins og hann var upphaflega.

Ekkert safn hafði áhuga

Bíll Taylors var knúinn tveggja strokka gufukatli sem var fyrir aftan bílstjórann. Ketillinn var svo tengdur við 23 lítra vatnstank, með gúmmíslöngum, sem staðsettur var milli framhjólanna.

Í stað gúmmídekkja voru málmþynnur á tréhjólunum, og til að stýra bílnum voru notaðar stangir. Hámarkshraðinn var um 24 km/klst. Í þá daga hefur það líklega þótt nokkuð gott, enda rúmlega fjórfaldur gönguhraði.

Taylor hafði gaman af hvers kyns vélum og smíðaði margar í frítíma sínum, þar á meðal gufubílinn sem hann hannaði á árunum 1865-67. Við það fékk hann hjálp járnsmiðs að nafni Joseph Mosher, sem sérsmíðaði suma málmhluti bílsins.

Það var svo kona að nafni Gertrude Sowden, sem bjó í Stanstead, sem fann bílinn í hlöðu á sjöunda áratug síðustu aldar. Hún þóttist vita að þar færi dýrgripur, en ekkert þeirra safna sem hún hafði samband við hafði áhuga á að fá bílinn. Það var svo Bandaríkjamaðurinn Richard Stewart sem keypti bílinn og gerði hann upp, og bætti á hann bremsum eins og áður segir.

1983 fór bíllinn loksins aftur til heimalands síns þegar Vísinda- og tæknisafn Kanada í Ottawa keypti hann aftur.

Skilgreiningaratriði hver var fyrstur

Reyndar eru til fleiri og eldri dæmi um eitthvað sem líkist bílum, eins og má til dæmis sjá á Wikipedia-alfræðisíðunni. Þannig má fara allt aftur til ársins 1771, til fallbyssuflutningavagns Nicholas-Josephs Cugnos, eða jafnvel til 1478, þegar Leonardo DaVinci hannaði upptrekkjanlegan vagn.

Það er því skilgreiningaratriði hver fyrsti bíllinn var, eftir því hvað telst vera bíll og hvað ekki, og víst er að Karl Benz fékk sína hugmynd ekki úr lausu lofti.

Hvort sem gufubíll Taylors telst „bíll“ í sama skilningi eða ekki er hann hugvitssamlegur og fallegur á að líta. Kíkið endilega betur á sögu hans á þessari síðu.

mbl.is