Parísarbúar búa sig undir bílabann

Vegna mikillar mengunar í París, höfuðborg Frakklands, hafa borgaryfirvöld ákveðið að takmarka umferð verulega í borginni á morgun. Þetta er í fyrsta sinn í tæp 20 ár sem gripið er til aðgerða í umferðinni til að sporna við mengun. Ákvörðunin er hins vegar afar umdeild.

Í fyrsta lagi er óljóst hvort borgaryfirvöldum er heimilt að takmarka umferð og í öðru lagi er óvíst hvort aðgerðirnar munu skila tilætluðum árangri.

Frá klukkan 05.30 í fyrramálið mega aðeins ökutæki sem eru með skráningarnúmer sem enda á oddatölu aka um París og 22 nærliggjandi svæði. Að sögn yfirvalda kemur til greina að framlengja bannið til þriðjudags.

Um 700 lögreglumenn munu manna um 60 eftirlitsstöðvar til að framfylgja ákvörðuninni. 

Rafmagnsbílar og blendingar eru undanþegnir banninu. Einnig ökutæki sem eru með fleiri en þrjá farþega um borð. 

Ökutæki sem eru með skráninganúmer sem enda á slétri tölu munu fá að leggja ókeypis í París. Með því vilja borgaryfirvöld hvetja borgarbúa til að vera samferða á einu ökutæki til og frá vinnu, svo dæmi sé tekið. 

Takmörkunin verður endurskoðuð daglega en gripið verður til framlengingar ef nauðsyn krefur. Bannið er því þannig að ökumenn mega aðeins nota ökutækin sín annan hvern dag. 

mbl.is

Bloggað um fréttina