Lést við að segjast „hamingjusöm“ á facebook

Frá slysstað.
Frá slysstað.

Klukkan 8.33 á fimmtudagsmorgni var Courtney Ann Sanford á leið til vinnu í Norður-Karólínu. Hún skrifaði stöðuuppfærslu á facebook undir stýri: „Happy-lagið gerir mig svo HAMINGJUSAMA.“ Einni mínútu seinna fékk lögreglan tilkynningu um banaslys.

Sanford hafði ekki bara skrifað stöðuuppfærslu undir stýri, heldur líka tekið sjálfsmyndir við aksturinn og birt á facebook. Svo virðist sem hún hafi ekki fylgst nægilega vel með akstrinum og lent framan á vörubíl sem kom úr gagnstæðri átt. Ökumanns hans sakaði ekki en Sanford lést.

Lögreglan útilokaði fljótt að áfengi, lyf eða hraðakstur gætu hafa valdið slysinu, en það var ekki fyrr en vinir Sanford bentu lögreglunni á facebook-síðu hennar sem skýringin kom í ljós.

Hún hafði viljað segja vinum sínum hvað hún var hamingjusöm á því augnabliki, sem reyndist svo vera hennar síðasta.

Lögreglumaðurinn Chris Weisner kom að slysinu. „Á nokkrum sekúndum er líf hennar búið, bara svo hún geti sagt vinum sínum að hún sé hamingjusöm,“ sagði Weisner í samtali við Fox8.

„Þetta er alvarleg áminning til allra, maður einfaldlega verður að einbeita sér að akstrinum.“

Sanford mun hafa verið í bílbelti en ekki notað það rétt.

mbl.is