Lamaður stýrir kappakstursbíl með höfðinu

Sam Schmidt við bíl sinn, SAM.
Sam Schmidt við bíl sinn, SAM.

Fyrir fjórtán árum lamaðist Sam Schmidt í slysi á kappakstursæfingu, og missti mátt í höndum og fótum. Þann 25. maí næstkomandi ætlar hann að setjast aftur undir stýri á kappakstursbíl, og keyra hring á Brickyard kappakstursbrautinni, í tilefni af Indy 500 kappakstrinum.

Schmidt hefur verið viðloðandi mótorsport í gegnum árin, þrátt fyrir slysið. Hann á Schmidt Peterson kappakstursliðið, með félaga sínum Ric Peterson, en til glöggvunar má nefna að Jacues Villeneuve mun keppa með því liði umrædda keppni. Sá hefur ekki sést í Indy kappakstri síðan 1995, þegar hann var fór með sigur af hólmi.

Bíll Schmidts, sem er Chevrolet Corvette Stingray, er mikið breyttur til að gera honum kleift að stjórna honum. Í raun er hann hálfsjálfkeyrandi og er samstarfsverkefni margra aðila, þar á meðal bandaríska flughersins. 

Bílnum er stýrt með því að hreyfa höfuðið. Myndavélakerfi nemur hreyfingar á innrauðum merkingum á hjálmi Schmidts, og senda boð til stýrisbúnaðarins. Hreyfi Schmidt höfuðið til hægri, beygir bíllinn til hægri.

Til að bremsa bítur hann saman tönnunum (á nema) og til að auka hraðann hallar hann höfðinu aftur. Vegna kerfisins er bíllinn kallaður Semi-Autonomous-Motorcar, eða SAM í höfuðið á ökumanninum.

Til öryggis er bíllinn einnig búinn GPS kerfi sem kemur í veg fyrir að hann komist nær ytri veggjum brautarinnar en sem nemur tæpum metra. Ef allt skyldi fara suður á bóginn er líka aðstoðarökumaður í farþegasætinu, sem getur gripið inn í og stýrt bílnum, skyldi eitthvert kerfanna bregðast.

Fyrir utan persónulegan áfanga Schmidts, sem getur nú aftur upplifað spennuna á kappakstursbrautinni, er ljóst að bíllinn er mikilvægt skref í þróun sjálfkeyrandi bíla, og bíla fyrir hreyfihamlaða.

Við æfingar og prófanir
Við æfingar og prófanir
Það þarf töluvert af tæknibúnaði til að stjórna bílnum.
Það þarf töluvert af tæknibúnaði til að stjórna bílnum.
Við æfingar og prófanir.
Við æfingar og prófanir.
mbl.is