Benz vill ekki að þú haldir að Google sé eitthvað sérstakt

Google hafði varla lokið við að kynna fyrirætlanir um smíði 100 tilraunabíla fyrir sjálfkeyrslutækni sína, þegar Mercedes-Benz sendi frá sér meðfylgjandi myndband.

Tilgangurinn gæti sem best verið að vekja athygli á því að þó að Google hafi unnið að sjálfkeyrandi bílum í þó nokkurn tíma eru fjölmargir aðrir, þar á meðal bílasmiðir eins og Mercedes-Benz, að vinna í því sama.

Og Benz segist í raun komið lengra í tækninni en Google, því tilraunabíllinn þeirra, S500 Intelligent Drive, hefur þegar farið í 100 km reynsluakstur á þýskum vegum án þess að mannshöndin hafi þurft að grípa inní. Við það tækifæri fór bíllinn hina sögufrægu leið frá Mannheim til Pforzheim, eða sömu leið og Bertha Benz ók fyrir 125 árum til að auka trú fólks á bílnum sem maður hennar hafði smíðað.

Mercedes-Benz reiknar með að tæknin verði komin í fólksbíla árið 2020, eða sama ár og Nissan stefnir á sama áfanga. Það er að segja, ef löggjöfin leyfir.

Og þá er nú aldeilis hægt að fara að nota símana á leiðinni úr og í vinnu.

mbl.is

Bloggað um fréttina