Rétta músíkin kallar fram betri bílstjóra

Tónlist hefur áhrif á manninn sem undir stýri situr, að …
Tónlist hefur áhrif á manninn sem undir stýri situr, að því er virðist.

Röng og alltof hátt glymjandi tónlist – harðir og áreitnir tónar og alltof hraður taktur – kallar fram púkann í bílstjórum. Rétt tónlist og ekki of hátt stillt bætir hins vegar ökumenn, gerir þá blíða sem engla og nærgætna.

Þetta eru niðurstöður ítrekaðra rannsókna, nú síðast á vegum bílaleigufyrirtækisins Europcar í Svíþjóð. Fékk það hljóðfræðing og tónlistarframleiðanda til að leggja í púkk og búa til safn tónverka undir heitinu „Sounds for Driving“, eða aksturshljómar. Var þeim ætlað að gera leigjendur bíla hjá Europcar að betri bílstjórum.

Tónlist þessi hefur verið í öllum bílum bílaleigunnar frá í apríl og þykir hafa gefið góða raun. Lögin voru að minnsta kosti átta mínútna löng og samin með tilliti til aksturs við sjö mismunandi aðstæður. Til dæmis allt frá rólegheitaakstri í dreifbýli til hraðbrautaaksturs og svo í innanbæjarakstri.

Rannsóknir hafa almennt leitt í ljós að hæfni mannsins til að leysa úr vandamálum eykst um allt að 30% í réttu hljóðumhverfi. Sannað þótti í rannsókn við Memorial-háskólann í Nýfundnalandi í Kanada að hávær tónlist yki viðbragðstíma ökumanna um allt að 20%. Ennfremur að taktur umfram 60 slög á mínútu skerti akstursfærni ökumanna og þar með umferðaröryggi.

Hin vísindalega útskýring á þessu er að mismunandi tegundir tónlistar hafi áhrif á geðslag fólks, virki á þann hluta taugakerfisins sem stýrir ósjálfráðri hegðun mannslíkamans. „Röng“ músík gæti örvað hjartslátt og aukið blóðþrýsting og kallað fram aukna losun stresshormóna. „Rétt“ tónlist kalli hins vegar fram aukna losun dópamíns er kallar fram gleði eins og yfir góðum árangri, sigri.

Takthraði tónlistarinnar hefur einnig áhrif. Hröð, æpandi og hörð hrynjandi getur leitt til þess að ökumaður aki skrykkjótt, stígi fastar og fastar á bensíngjöfina og aki því umfram hámarkshraða. Róleg músík og lágstemmdari, svo sem klassísk tónlist, hefur þveröfug áhrif og kallar fram doða hjá bílstjóranum. Lykillinn að góðum og öruggum akstri sé því að finna rétta jafnvægið, einhvers staðar þarna á milli.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »