Súrt regn hefur slæm áhrif á bílalakk

Páll Mar Magnússon hjá Löðri segir brennisteinsdíoxíð geta skemmt lakk ...
Páll Mar Magnússon hjá Löðri segir brennisteinsdíoxíð geta skemmt lakk bíla. mbl.is/Elvar Gunnarsson

Styrkur brennisteinsdíoxíðs (SO2) mælist nú mjög hár víða um land vegna eldgossins í Holuhrauni og mengunin virðist ná til allra landshluta samkvæmt spákorti veðurstofu Íslands í dag.

Brennisteinsdíoxíð er ein helsta ástæðan fyrir súru regni sem hefur víðtækar afleiðingar. Súrt regn hefur m.a. í för með sér skemmdir á bílum.

„Brennisteinsdíoxíð  og súra regnið hefur slæm áhrif á lakk bifreiða sem hefur því hlutverki að gegna að hlífa bílnum gegn ryði og tæringu auk þess að sjálfsögðu að gera hann fallegri,“ segir Páll Mar Magnússon, framkvæmdastjóri Löðurs.

„Það eru nokkrir hlutir sem mega ekki sitja á bifreiðum og má þar nefna auk súra regnsins, rúðuvökva, fuglaskít, trjákvoðu, salt og fleira sem tærir lakk. Einnig má tjara ekki sitja á lakkinu þar sem að hún litar og herðir lakkið og gerir það stökkt.

Silfurlitaðir bílar sem að öllu jöfnu er hægt að spegla sig í verða spanskgrænir sem er það fyrsta sem menn taka eftir, en í rauninni er öll bifreiðin að ryðga til grunna. Því þarf að halda bílunum hreinum og verja þá fyrir öllu sem getur haft áhrif á útlit þeirra og endingu,” segir Páll Mar ennfremur.

Hann segir að það sé mikilvægt að þrífa bílinn með réttu efnunum. „ Það má ekki gleyma að góð umhirða bíls veitir ekki einungis eiganda hans ánægju heldur stuðlar hún einnig að því að halda verðmæti bílsins sem bestu og hann verði söluvænlegri í endursölu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina