Rafhjól sem tekur önnur ofurhjól í nefið

Rafhjólið Lightning LS-218 er fyllilega samkeppnishæft við nýjustu gerðir hjóla …
Rafhjólið Lightning LS-218 er fyllilega samkeppnishæft við nýjustu gerðir hjóla eins og Yamaha R1, Kawasaki Ninja H2 og Ducati 1299 Panigale.

Lightning Motorcycles hefur afhent fyrsta LS-218 rafhjólið sem er sannkallað ofurhjól.

Fyrsti kaupandinn heitir Troy Helming en hann er forstjóri Pristine Sun sem er fyrirtæki sem vinnur með endurnýjanlega orkugjafa. Troy hefur hugsað sér að nota hjólið reglulega til og frá vinnu enda þægilegt að komast leiðar sinnar á mótorhjóli í umferðarhnútum San Fransisco-borgar. Til stendur að afhenda fimm eintök á næstu vikum en komnar eru óstaðfestar pantanir í yfir tvö hundruð Lightning-hjól.

Hámarkshraði 350 km á klst.

LS-218 var frumsýnt á mótorhjólasýningu í Kaliforníu í maí en frumgerð hjólsins var fyrsta rafdrifna mótorhjólið til að ná meiri hraða en 200 mílum, eða 320 km á klst. Nafnið fékk hjólið eftir heimsmetið sem var einmitt 218 mílur eða hvorki meira né minna en 350 km á klst. Eins og það væri ekki nóg tókst sama hjóli að vinna mótorhjólaflokkinn í Pikes peak-rallinu árið 2013. Lightning LS-218 er drifið áfram af 200 hestafla rafmótor svo að það mun blanda sér í hóp bensínknúinna ofurhjóla með svipaða hestaflatölu. Það sem LS-218 hefur þó fram yfir öll hin ofurhjólin er massíft togið. Það er 228 Newton-metrar sem er eitthvað sem meðalstór bíll væri fullsæmdur af. Drægnin er mest tæpir 300 km á 20 kWh rafhlöðu og hægt er að fullhlaða hjólið á tveimur klukkustundum í hefðbundinni innstungu. Ekkert er til sparað við hönnun hjólsins sem er með Öhlins-fjöðrun, fjögurra stimpla Brembo-bremsum að framan og steyptum magnesíum felgum frá Marchesini. Fyrir vikið er verðmiðinn frekar hár en grunnverð hjólsins í Bandaríkjunum er tæpar fimm milljónir króna. njall@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: