Vélahitarar eru mikið þarfaþing

Í rysjóttri vetrartíð er segin saga að eldsneytiseyðsla bíla er ...
Í rysjóttri vetrartíð er segin saga að eldsneytiseyðsla bíla er meiri en ella. Þá gildir sem fyrr að aka með jöfnum hraða og vélahitarar geta þá gert gæfumuninn, bæði með tilliti til eyðslu og endingar vélar. mbl.is/Golli

Marteinn Guðmundsson, ökukennari hjá Vistakstur.is, gaf lesendum nokkur hagnýt sparnaðarráð í síðustu viku í tengslum við eldsneytisnotkun bifreiða.

Það er engum blöðum um það að fletta að eldsneytiskostnaður er með stærri kostnaðarliðum í bókhaldi flestra heimila landsins og því til mikils að vinna til að draga úr honum. Stefán Ásgrímsson, ritstjóri hjá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda, hefur um langt árabil gefið góð ráð í þessum efnum. Hann segir að með hækkandi eldsneytiskostnaði hafi umræðan um mögulegar sparnaðarleiðir aukist til mikilla muna. Hann segir nokkuð algengt að sjá bíla í lausagangi, til dæmis þegar ökumenn þurfi að bregða sér frá í skamman tíma.

„Það borgar sig alltaf að drepa á bílnum þegar hann er yfirgefinn. Fyrir nú utan það að mannlaus bíll í gangi getur orðið sterk freisting þeim sem ekki eru of sterkir á hinu siðferðislega svelli, eins og dæmin sanna. Þá má minna á þá staðreynd að einnar mínútu lausagangur er eldsneytisfrekari en gangsetning vélarinnar. Tíu mínútna lausagangur vélar (bíllinn í frígír og slökkt á lofkælingu) þýðir að vél í meðalstórum bíl brennir um 130 rúmsentimetrum af eldsneyti til einskis.“

Fjarlægið óþarfa búnað

Stefán segir að eldsneytiseyðsla aukist eðlilega, séu bílar of þungir eða með óþarfa búnað. Til dæmis sé algjör óþarfi að vera með skíðaboga eða „tengdamömmubox“ á bílnum allan ársins hring.

„Þegar ekið er um með 100 kíló að nauðsynjalausu leiðir það til umtalsvert aukinnar eldsneytiseyðslu. Aukningin nemur um sex prósentum á meðalstórum fólksbíl. Því er skynsamlegt að athuga hvort einhver ónauðsynlegur þungi sé í farangursgeymslunni, t.d. farangur eða dót sem væri betur geymt annars staðar. Nútímabílar eru flestir hannaðir með loftmótstöðu í huga. Farangursgrind á toppnum getur aukið eldsneytiseyðslu um 20 prósent.“

Vélahitari eykur endingu

Veturinn hefur verið erfiður og eyðsla bíla eykst eðlilega þegar kalt er í veðri. Stefán mælir með vélahitara í bíla.

„Vélahitarar eru mikil þarfaþing. Þeir draga stórlega úr vélarsliti og lengja þannig endingu bílvéla verulega og draga úr eldsneytiseyðslu og mengun. Það gera þeir vegna þess að vélin er heit þegar bíll er ræstur á köldum morgnum. Vélarhitarar eru í raun og veru hitaelement svipað og í hraðsuðukatli. Elementinu er komið fyrir í vélinni til að hita upp kælivatnið og klukkurofi sér um að kveikja á hitaranum tveimur til þremur klukkustundum áður en ekið er af stað að morgni. Margir hafa auk þess inni í bílunum lítinn rafmagnsblásara sem fer í gang um leið og kviknar á elementinu í vélinni. Þar með eru þeir lausir við alla ísingu og snjó á rúðum, bíllinn dettur í gang um leið og miðstöðin blæs heitu lofti strax. Vélahitarar þykja vegna kosta sinna sjálfsagður búnaður víða, eins og í Svíþjóð, Finnlandi og Noregi. Þeir spara auðveldlega 30% eldsneyti á fyrstu fjórum til fimm aksturskílómetrunum miðað við bíl án vélarhitara og að sama skapi gefa þeir frá sér amk 30% minna af skaðlegum mengunarefnum.“

Jafn ökuhraði

Með hækandi sól eykst umferðin á þjóðvegum landsins. Stefán undirstrikar nauðsyn þess að halda jöfnum hraða. Slíkur akstur lækki ekki aðeins eldsneytiskostnaðinn, síðast en ekki síst verði aksturinn öruggari.

„Mjúkt aksturslag krefst minna eldsneytis, er öruggara og skilar þér og farþegum þínum þægilegar á áfangastað. Auktu hraðann mjúklega og haltu jöfnum hraða. Aktu mjúklega af stað (20 km/klst. á fimm sekúndum þýðir 11% minni eldsneytiseyðslu) og forðastu að vera sífellt að stansa og rífa bílinn af stað þegar þú ekur. Forðastu að aka þétt aftan við næsta bíl. Það krefst þess að þú þarft stöðugt að vera að hemla og gefa í og veldur tvö prósent meiri eldsneytiseyðslu í þéttbýli og sex prósent meiri eyðslu á vegum úti. Aktu í sem hæstum gír eftir því sem mögulegt er miðað við aðstæður.“

karlesp@simnet.is