Dægilegustu og traustustu bifhjólin

Ekki fer saman endingartraust og akstursánægja þegar mótorhjól eru annars …
Ekki fer saman endingartraust og akstursánægja þegar mótorhjól eru annars vegar.

Dægilegustu mótorhjólin eru þau bandarísku en þau traustustu japönsk. Þetta er niðurstaða bandaríska neytendaritsins Consumer Reports. 

Tímaritið þykir afar áhrifamikið hvað varðar neysluvenjur í Bandaríkjunum en það hóf í fyrra að mæla ánægju fólks með hinar ýmsu tegundir mótorhjóla.

Á grundvelli rúmlega 12.300 skýrsla frá neytendum og annarra upplýsingagagna hefur það dregið upp lista sinn.

Niðurstaðan er að bestu kaupin liggja í japönskum mótorhjólum fyrir neytendur sem leggja mikið og mest upp úr áreiðanleika og endingartrausti.  Í efsta sæti er Yamaha og í næstu sætum Suzuki, Kawasaki og Honda.

Victory og Harley-Davidson eru á miðjum lista í þessu efni og evrópsku mótorhjólin frá  Triumph, Ducati og BMW eru í botnsætum hans. Í allra neðsta sæti hafnaði Can-AmSpyder frá Bombardier frístundatækjasmiðjunni.

Þrátt fyrir góða endingu bila öll hjól en minnstur er viðgerðarkostnaður eigenda Kawazakihjóla, eða 269 dollara. Til samanburðar þarf eigandi BMW að punga út 455 dollurum í viðgerðir á ári.

Þótt japönsk hjól séu billegust í rekstri þá eru þau ekki hin dáðustu af hálfu knapa þeirra. Í þeim efnum eru yfirburðir bandarísku hjólanna algerir, segir Consumer Reports. Mest unna eigendur Victory hjóla fákum sínum, en 80% þeirra sögðust myndu kaupa sér annað af þeirri tegund við endurnýjun hjólakostsins.

Í öðru sæti er Harley Davidson og þriðji mseti gleðigjafinn meðal mótorhjóla er Honda.






mbl.is