Dakar-rallbíll í Jósepsdalnum

Balazs Szalay er ungverskur ökumaður sem gert hefur garðinn frægan í Dakar rallinu og er hann jafnframt þekktasti Ungverjinn í rallinu. Hann hefur keppt í rallinu í tuttugu ár og er nú staddur hér á landi í tilefni sýningarinnar Allt á hjólum sem haldin er í Fífunni þessa helgina.

Szalay er ekki einn á ferð því með honum er aðstoðarmaður og sjálfur keppnisbíllinn.

Það er ekki á hverjum degi sem almenningi gefst kostur á að skoða sérútbúinn bíl úr Dakar rallinu og er því um að gera að bregða sér í Fífuna og sjá með eigin augum hvernig slíkur bíll er útbúinn fyrir hina erfiðu keppni. Bíllinn sem um ræðir er af gerðinni Opel Mokka en Szalay hefur keppt á Opel í fjölda ára. Bíllinn er með 6,2 lítra vél og vegur 2150 kíló. Opel Dakar Team hefur annast allar breytingar á bílnum sem er fyrir vikið afar frábrugðinn öðrum í flota framleiðandans.

Bílabúð Benna er gestgjafi Szalays hér á landi og í vikunni bauðst rallkeppandanum Malínu Brand sem jafnframt er blaðamaður á Morgunblaðinu að fara í leiðangur með Szalay í nágrenni við Jósepsdalinn. Szalay sýndi góða takta og hafði gaman af íslenska umhverfinu.

Þórður Bragason var á staðnum fyrir hönd Akstursíþróttasambandsins og gætti að formsatriðunum.

Auk þess var annar rallbíll á svæðinu, hinn margfrægi Tomcat jeppi, sem McKinstry bræður hafa keppt á í rallinu hér á landi. Tomcat brunaði um hrjóstrugan Jósepssdalinn á öskrandi siglingu og var ekki annað á þeim Ungverska að sjá að hann nyti þess er fyrir augu bar. 

mbl.is/Malín Brand
mbl.is/Malín Brand
mbl.is

Bloggað um fréttina