Þegar 79% barna voru laus í bílnum

Fyrir þrjátíu árum síðan voru 79% barna á leikskólaaldri laus í bílnum þegar byrjað var að kanna notkun öryggisbúnaðar hjá börnum í ökutækjum. Síðan þá hefur orðið alger viðsnúningur í þessum efnum og nú eru börn nánast undantekningarlaust í bílbeltum eða bílstólum þegar það á við. 

Í síðustu könnun sem gerð var árið 2013 voru 49 leikskólar heimsóttir í 21 bæjarfélagi og gerð var athugun á öryggi 1976 barna. Þar kom í ljós að 92% barna voru fest með viðeigandi öryggisbúnaði, 6% voru einungis í bílbeltum og 2% barna voru laus í bílum.

Í dag var starfsfólk Samgöngustofu að kanna hvernig málum var háttað við leikskólann Sjáland í Garðabæ, þar voru allir ökumenn með sitt á hreinu og var vel búið um börnin. mbl.is var á staðnum og ræddi við Einar Magnús Magnússon, kynningarstjóra Samgöngustofu, hann hefur sinnt slíkum skoðunum í gegnum tíðina og rifjaði upp sögu af ungum föður sem hafði mestar áhyggjur af því að lögreglan skipti sér af því að hann væri ekki með barnið í viðeigandi öryggisbúnaði.  

Hér er að finna reglugerð um öryggiskröfur í bílum.

Á myndinni táknar rautt laus börn í bíl, gult börn …
Á myndinni táknar rautt laus börn í bíl, gult börn sem nota aðeins bílbelti og grænt börn með viðeigandi öryggisbúnað. Heimild/Samgöngustofa
mbl.is

Bloggað um fréttina