Google-bíll gómaður fyrir hægagang

Lögreglumaðurinn hefur afskipti af google-bílnum í Mountain View.
Lögreglumaðurinn hefur afskipti af google-bílnum í Mountain View.

Sjálfeknir bílar gera mistök eins og mennirnir því einn slíkur var stöðvaður í bænum Mountain View í Kaliforníu í síðustu viku. Laganna verðir fundu að háttalagi bílsins, sögðu hann hafa gerst sekan um hægagang.

Að sögn talsmanns lögreglunnar varð lögreglumaður við umferðareftirlit þess áskynja að eðlilegur umferðarhraði datt skyndilega niður á El Camino Real-brautinni.

Í skýrslu sem hann síðar gaf segir að Google-bíllinn hafi ekið á 40 km/klst hraða á götu sem gerð væri fyrir 55 km hraða. Átti mælingin sér stað í fjögurra kílómetra fjarlægð frá höfuðstöðvum Google, en bíllinn var þar á ferð vegna þróunaraksturs sjálfekinna bíla fyrirtækisins.

Þegar lögreglumaðurinn hugðist hafa afskipti af bílnum „brotlega“ áttaði hann sig á hvers kyns farartæki væri þar á ferð og setti sig í samband við stjórnendur bílanna til að grennslast fyrir hvernig hraða þeirra væri stjórnað.

Sagði Google að forrit meinuðu bílunum að aka hraðar og þeir hefðu leyfi til að aka á vegum með allt að 55 km hámarkshraða. „Í þessu tilviki var hraði bílsins löglegur,“ skrifaði lögreglumaðurinn ennfremur í skýrslu sína.

Google sagði ennfremur: „Rétt eins og þessi laganna vörður gerði þá stöðvar fólk stundum bílana því það vill fræðast um verkefnið. Eftir að hafa lagt 1,9 milljónir sjálfekna kílómetra að baki – sem svarar 90 ára akstri meðalmannsins – erum við stolt af því að geta sagt að við höfum aldrei fengið umferðarsekt.“ agas@mbl.is

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »