Peningar í umferð

Breytingarnar fyrirhuguðu á Grensásvegi.
Breytingarnar fyrirhuguðu á Grensásvegi. Ljósmynd/Reykjavíkurborg/EFLA verkfræðistofa

Í allri umræðunni um fyrirhugaða breytingu á Grensásvegi milli Miklubrautar og Bústaðavegar er ekki laust við að ein spurning eða svo skjóti upp kollinum.

Af hverju þarf að eyða tæpum tvö hundruð milljónum í sérstaka hjólarein á þessum stað þegar reiðhjól mega vera hvar sem er í umferð eins og dæmin sanna? Sjálfsagt eiga reiðhjól jafnan rétt og aðrir í umferðinni og samkvæmt nýjustu viðbótinni við hin úreltu umferðarlög frá 1987 má ekki skerða ferðafrelsi þeirra. Þess vegna taldi samgöngunefnd sig ekki geta sett sig upp á móti takmörkunum á umferð svokallaðra gangstéttarvespa og leyfði notkun þeirra á hvaða vegi sem er óháð hraða umferðar. Eins og allir sjá sem leggja leið sína út á þjóðvegi landsins á sumrin eru reiðhjól þar algengur ferðamáti, á mjóum vegum með 80-90 km hámarkshraða. Af hverju þarf þá að breyta umferðarléttri tveggja akreina götu með mjög lága slysatíðni í götu með sérstaka hjólarein?

Pláss fyrir aukarein á miðeyju

Samkvæmt teikningum af fyrirhugaðri hjólarein verður hún lögð næst gangstéttinni en eyjan á milli akstursstefna verður jafnbreið og áður þótt komið verði fyrir lágum gróðri og ljósastaurum. Gróður byrgir sýn og þrátt fyrir að gæta eigi þess að hann geri það ekki hafa dæmin sýnt annað og gróður er fljótur að vaxa. Skeiðarvogurinn er dæmi um götu sem breytt var úr tveimur akreinum í eina, samt ekki með sérstakri reiðhjólarein. Gróður sem þar var komið fyrir hefur vaxið hraðar en fjársvelt garðaþjónusta borgarinnar ræður við og afleiðingin er aukin slysahætta við gangbrautir á Skeiðarvoginum. Eyjuna á Grensás mætti þá frekar nýta sem reiðhjólarein án þess að það komi niður á akstri bíla um götuna. Að vísu þurfa reiðhjólin að koma sér út á eyjuna á gatnamótum, sem eru ljósastýrð, og fækka þyrfti vinstribeygjum gegnum eyjuna til að auka öryggi þeirra. Öryggi þeirra yrði þó umtalsvert meira en upp við gangstéttina þar sem umferð inn á Grensásveginn á erfitt með að sjá reiðhjól vegna hárra grindverka sem ná alveg upp að gangstéttinni.

Virkar Langahlíð?

Þegar svona framkvæmd er skipulögð er gott að horfa til áhrifa sem ámóta aðgerðir hafa haft á umferð og satt best að segja er ég efins um að það hafi verið gert í þessu tilfelli. Svipuð aðgerð átti sér stað fyrir nokkrum árum við Lönguhlíð, þar sem tveggja akreina götu með tiltölulega lítilli umferð var breytt þannig að sérakrein var fyrir reiðhjól. Búturinn þar á milli hringtorgsins við Hlíðaskóla og Miklubrautar er gott dæmi um bútasaum sem gerir ekki neitt fyrir öryggi reiðhjólafólks þar sem engar nothæfar reiðhjólareinar eru þar á undan eða eftir. Reynslan þar hefur sýnt að reiðhjólareinin er nýtt undir snjó frá snjóruðningstækjum á veturna. Vanhugsuð atriði sem skapa svo enn meiri hættu fyrir hjólreiðafólk eru svo þar, eins og koddahindrun sem draga á úr hraða bíla við stoppistöðina við Sunnubúð. Hindrunin er sett nákvæmlega þar sem reiðhjólareinin sveigir upp að bílareininni og afleiðingin er einfaldlega sú að bílar skjóta sér framhjá koddanum með því að aka upp á reiðhjólareinina. Gáfuleg framkvæmd eða hitt þó heldur. Hvað segja má um kodda sem spretta upp eins og kýli á ólíklegustu stöðum er annað mál og líklega væri þeim peningum betur varið í að merkja gangbrautir í Reykjavík. Sú eyðsla á almannafé væri hins vegar efni í annan pistil því að vitleysan þar ríður ekki við einteyming. Góðar stundir.

njall@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »