Rafbílarnir ódýrari árið 2022

Framtíðin er rafbíla samkvæmt greiningu BNEF.
Framtíðin er rafbíla samkvæmt greiningu BNEF. AFP

Ódýrara verður að að kaupa og reka rafmagnsbíl en hefðbundinn bíl árið 2022 samkvæmt nýrri skýrslu Bloomberg New Energy Finance (BNEF). Helsta ástæðan er sögð sú að hríðfallandi kostnaður við rafhlöður komi til með að skapa líflegan markað með rafbíla.

Þrátt fyrir að mörg ríki veiti efnahagslega hvata til almennings til að fjárfesta í rafbílum eins og með því að fella niður ýmis gjöld eru þeir enn dýrari en hefðbundnir bensín- og dísilbílar. Greining BNEF gerir engu að síður ráð fyrir að heildarkostnaðurinn við að kaupa og reka rafbíl verði orðinn lægri en við hefðbundinn bíl árið 2022, jafnvel þó að hefðbundnir bílar bæti eldsneytisnýtingu sína um 3,5% á ári.

Greiningin er háð þróun olíuverðs en BNEF byggir á spám bandarískra stjórnvalda í þeim efnum. Þau gera ráð fyrir að olíutunnan verði á bilinu 50-70 dollara á næsta áratug. Verði olíuverðið nær 20 dollurum gæti tímapunkturinn þar sem rafbílar verða ódýrari frestast um þrjú til níu ár.

Colin McKerracher, yfirgreinandi hjá BNEF, segir að grunnur spárinnar sé verðþróun á rafhlöðum fyrir rafbíla.

„Litínrafhlöður hafa þegar fallið um 65% í verð frá árinu 2010 og verðið náði 350 dollurum á kílóvattstund árið 2015. Við gerum ráð fyrir að kostnaður við rafbílarafhlöður verði vel undir 120 dollurum á kílóvattstund fyrir árið 2030 og það falli enn frekar eftir það eftir því sem ný efni verða tekin í notkun,“ segir McKerracher.

Frétt The Guardian

mbl.is