BL frumsýnir rafbílinn BMW i3

Drægi BMW i3 er minnst 300 km. Bíllinn þykir um ...
Drægi BMW i3 er minnst 300 km. Bíllinn þykir um margt einstakur í sinni röð og á það líka við um útlitið; framúrstefnulegur en auðþekkjanlegur.

Næstkomandi laugardag verður rafbíllinn BMW i3 frumsýndur hjá BL, en hann hefur víða hlotið góðar viðtökur. Þá þykir hann um margt einstakur í sinni röð, hvort sem litið er til smíði hans, hönnunar og efnisnotkunar, svo og drægis bílsins.

Umhverfisstofnun Bandaríkjanna hefur vottað BMW i3 sem sparneytnasta rafbíl allra tíma og BMW i3 með bensínljósavél sem sparneytnasta „bensínbílinn“. Hjá BL segja menn i3 gott dæmi um það hvernig hönnuðir BMW leiti sífellt nýrra leiða til að uppfylla þarfir og væntingar, bæði viðskiptavina og alþjóðasamfélagsins almennt þar sem umhverfismál eru hvarvetna mjög í brennidepli.

Eingöngu er notuð græn raforka við framleiðslu og samsetningu á BMW i3. Yfirbyggingin og fleiri íhlutir eru framleidd í nýrri verksmiðju BMW við Moses-vatn í Washington-ríki í Bandaríkjunum, en alla raforku sína fær hún frá nálægri vatnsaflsvirkjun. BMW i3 er síðan settur saman í Leipzig í Þýskalandi þar sem BMW lét reisa nýja verksmiðjueiningu á lóð sinni þar og kemur öll raforkan frá vindorkuveri sem staðsett er í nágrenninu.

Langdrægastur í sínum flokki

Undirvagn BMW i3 er smíðaður úr áli og yfirbyggingin úr koltrefjum. Að sögn BMW er i3 fyrsti fjöldaframleiddi bíllinn í heiminum sem hannaður er með yfirbyggingu úr hástyrktum koltrefjum. Ein helsta áskorunin við hönnun rafbíla er að mæta þyngd rafhlöðunnar með því að draga úr þyngd annarra hluta bílsins. Koltrefjar eru 50% léttari en stál og eru auk þess sterkari. Þessi nýja tækni við framleiðslu yfirbyggingarinnar er helsta ástæða þess að eigin þyngd bílsins er aðeins 1.245 kg, sem gerir hann langdrægasta rafbílinn í sínum stærðarflokki, með allt að 300 km drægni. Innviðir í farþega- og farangursrými i3 eru úr náttúrulegum og endurvinnanlegum efnum, en alls eru 95% allra efna í i3 endurvinnanleg. Svonefndir kenaf-þræðir eru áberandi í fyrirferðarmiklum hlutum í farþegarýminu. Kenaf er 100% náttúrulegt efni sem unnið er úr moskusrósum og er 30% léttara en plastefni sem alla jafna eru notuð þar sem kenaf er í i3. Notkun þessa efnis gerði hönnuðum BMW kleift að draga verulega úr plastnotkun í samsetningu á i3.

Ull, ólífulauf og tröllatré

Í BMW i3 er hrein ull notuð á 40% af yfirborði sætanna til að jafna hitastig á milli heitra og kaldra daga. Við það sparast orka sem meðal annars færi í sætisupphitun. Það leður sem notað er í innréttingunni er litað með laufum ólífutrjáa sem falla til við ólífuframleiðslu og er að mestu fargað. Notkun ólífulaufa í stað kemískra litarefna er vistvænt ferli sem auk þess gefur leðrinu náttúrulegan lit. Í innréttingunni er einnig að finna viðartegundina tröllatré, gúmmítré af myrtuætt, sem er einn fljótsprottnasti viður veraldar og hefur innbyggða vörn gegn raka. Þarf viðurinn um 90% minni yfirborðsmeðhöndlun en hefðbundinn viður. Allur viður sem notaður er í i3 kemur úr ræktuðum vottuðum nytjaskógum.

Kraftur og snerpa að hætti BMW

BMW i3 er fáanlegur í tveimur útfærslum. Annars vegar sem 100% rafbíll sem dregur allt að 300 km á hleðslunni, og hins vegar sem tvíorkubíll með bæði rafhlöðu og tveggja strokka, 647cc bensínhleðsluvél sem ræsir sig sjálf þegar bæta þarf rafmagni á rafhlöðuna. Í þeirri útfærslu dregur BMW i3 390 km áður en fullhlaða þarf rafhlöðuna. Rafmótorinn í BMW i3 er 170 hestöfl, hámarkstog er 250 Nm. Bíllinn er aðeins 7,3 sekúndur að ná 100 km hraða úr kyrrstöðu.

BMW i3 verður frumsýndur næstkomandi laugardag, 27. ágúst, í húsakynnum BL við Sævarhöfða milli klukkan 12 og 16.

agas@mbl.is

Hrein ull þekur 40% af yfirborði sætanna til að jafna ...
Hrein ull þekur 40% af yfirborði sætanna til að jafna hitastig milli heitra og kaldra daga. Við það sparast orka sem meðal annars færi í sæt- isupphitun. Viðurinn í innréttingunni kemur úr vottuðum nytjaskógum.
Hurðirnar opnast til hvorrar áttar í fjögurra dyra BMW i3 ...
Hurðirnar opnast til hvorrar áttar í fjögurra dyra BMW i3 bílnum.
Mælaborðið er fágað í BMW i3.
Mælaborðið er fágað í BMW i3.
Rafgeymir BMW i3 er undir bílnum sem stuðlar að lágum ...
Rafgeymir BMW i3 er undir bílnum sem stuðlar að lágum þyngdarpunkti.