VW-stjóri sendur í steininn

Enn er Volkswagen að bíta úr nálinni vegna útblásturshneyklsins.
Enn er Volkswagen að bíta úr nálinni vegna útblásturshneyklsins. AFP

Dómstóll í Suður-Kóreu hefur dæmt forstjóra Volkswagen (VW) þar í landi í eins og hálfs árs fangelsi fyrir að hafa falsað skýrslur um útblásturs- og hávaðaprófanir á Volkswagenbílum í þeim tilgangi að fá leyfi til innflutnings á þeim.

Er þetta ein af mörgum afleiðingum útblásturshneykslisins sem upp um komst fyrst haustið 2015 í Bandaríkjunum.

Vegna svindlsins var sala á bílum frá Volkswagensamsteypunni bönnuð í Suður-Kóreu í ágúst í fyrra. Náði bannið til 80 módela VW-, Audi- og Bentleybíla. Jafnframt var Volkswagen sektað um jafnvirði 15 milljóna dollara fyrir skjalafalsið.

„Volkswagen hefur með eigin gjörðum grafið undan trúverðugleika sínum sem hnattrænt vörumerki með þessum glæp sem haft hefur í för með sér alvarlegt félagslegt og efnahagslegt tjón,“ sagði í dómi héraðsdóms í Seoul. Aðeins var eftirnafn hins dæmda gefið upp en það er Yun. Var hann m.a. dæmdur fyrir brot á umhverfislöggjöf Suður-Kóreu sem hefur verið ört vaxandi markaður fyrir Volkswagen.

mbl.is