Öll stæði verða hleðslustæði

Í sumar verða fjörutíu og tvær hleðslustöðvar fyrir rafbíla við …
Í sumar verða fjörutíu og tvær hleðslustöðvar fyrir rafbíla við IKEA. mbl.is/Golli

Í sumar verða fjörutíu og tvö hleðslustæði við IKEA og ég hugsa að eftir þrjú til fimm ár verð flest okkar stæði hleðslustæði,“ segir Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA, spurður um uppbygginu rafhleðslustöðva á bílastæði fyrirtækisins.

„Við gerum okkur grein fyrir því að innan fárra ára verða flestir komnir á annaðhvort svokallaða tvinnbíla eða hreina rafmagnsbíla. Viðskiptavinir okkar munu þá geta hlaðið bílinn á meðan þeir versla hjá okkur eða fá sér að borða.“

Spurður hvers eðlis hleðslustöðvarnar séu segir Þórarinn að sett hafi verið upp ein hraðhleðslustöð, ellefu venjulegar og verið sé að setja upp tuttugu millihleðslustöðvar, sem hlaði rafhlöður bíla hraðar en hefðbundnar hleðslustöðvar en hægar en hraðhleðslustöð.

„Viðskiptavinir eyða að meðaltali einum og hálfum tíma í versluninni og á þeim tíma nærðu upp ágætri hleðslu, jafnvel bara á venjulegri hleðslustöð. Hugmyndin er að þú komir og getir hlaðið upp að fullu eða hluta meðan þú verslar. Það myndi t.d. duga fyrir flesta eigendur tvinnbíla að hlaða bílinn með þeir skreppa inn og versla eða fá sér að borða,“ segir Þórarinn sem sjálfur er tvinnbílseigandi.

„Ég hef ekki tekið bensín á bílinn minn síðan í september. Ég kemst allra minna ferða á rafmagninu og hleð hann upp hér í vinnunni og heima. Rafmagnið er framtíðin og fólk mun vilja geta hlaðið bílinn sinn meðan það skreppur inn í verslanir og stofnanir. Þetta er ekki alltaf spurningin að hafa fulla hleðslu heldur þægilega mikla til að sinna þínum erindum. Á morgnana stoppar fólk oft fyrir utan hjá okkur hér í IKEA til að hlaða bílinn í tuttugu mínútur til hálftíma. Það kemur þá inn í verslunina á meðan, fær sér að borða eða verslar eitthvað lítillega.“

Spurður um kostnað IKEA af hleðslustöðvum segir Þórarinn hann ekki mikinn miðað við ávinninginn.

„Þetta er framtíðin og við ætlum okkur að vera undirbúin fyrir hana. Hleðslustæði auka líka samkeppnishæfni okkar. Fyrirtæki verða að stíga þetta skref ef þau ætla ekki að dragast aftur úr.“

Ódýr matur og orka

Jón Björnsson, forstjóri Festi sem rekur m.a. Krónuna og Elko, segir uppsetningu rafhleðslustöðvar fyrst og fremst vera lið í umhverfisstefnu fyrirtækisins og þjónustu við viðskiptavini.

„Við settum upp hraðhleðslustöðvar við nýja verslun Krónunnar í Hafnarfirði í fyrra en þar áður höfðum við sett upp hleðslustöðvar fyrir utan t.d. Elko í Lindunum og verslun okkar á Akranesi,“ segir Jón en Festi hefur á stefnu sinni að bæta við hleðslustöðvum fyrir utan fyrirtæki sín þegar framkvæmdir eru við verslunarhúsnæði þeirra.

„Einn þáttur í þessu er líka að hjálpa fólki að spara. Við bjóðum ekki bara upp lágt vöruverð heldur hjálpum við fólki að spara sem vill hlaða bílinn sinn á meðan það verslar.“

Spurður um kostnað segir Jón hann ekki vera mikinn. Það kosti lítið að setja upp hleðslustöðvar og fyrirtækið rukki ekki fyrir orkuna.

„Við erum að læra helling á þessu. Ég veit ekki hvaða orkugjafi verður ofan á eftir tíu ár en hvað sem framtíðin ber í skauti sér þá erum við að átta okkur á notkun fólks á hleðslustöðvum, læra á eftirspurnina. Ég lít ekki á þetta sem samkeppnisforskot þegar flestir eru farnir að bjóða upp á hleðslu á bílastæðum fyrir utan reksturinn sinn en þú getur heldur ekki sleppt þessu og orðið eftir á.“

Verslunarmiðstöðvar

Bæði Kringlan og Smáralindin taka á móti milljónum gesta á hverju ári. Ætla má að þegar lungi bílaflotans verður kominn á rafmagn kjósi neytendur frekar að leggja bílnum fyrir utan verslunarmiðstöð en að hanga á bensínstöð/rafmagnsstöð þegar hlaða á bílinn upp í topp.

Smáralindin og Kringlan hafa bæði sett upp hleðslustöðvar á bílastæðum sínum en nálgast verkefnið með ólíkum hætti.

„Við erum með fjórar hraðhleðslustöðvar á bílastæðinu og höfum samþykkt að setja upp fleiri,“ segir Sturla Gunnar Eðvarðsson, framkvæmdastjóra Smáralindar, en alls eru þrjú þúsund stæði í kringum verslunarmiðstöðina.

„Það kostar sitt að setja upp þessar stöðvar og við ætlum að meta þörfina og reyna að átta okkur á því hver markaðurinn verður. Stæði eru dýr og við ætlum að vanda okkur við að meta og greina þörfina.“

Líta þarf til margra þátta að sögn Sturlu, m.a. þróunar rafmagnsbíla en hann segir óvíst að fólk hafi sömu þörf fyrir að hlaða bíl sem dregur hundruð kílómetra og þá sem eru komnir á göturnar í dag.

„Hvernig verður greitt, hver rekur hleðslustöðvarnar o.fl. er eitthvað sem á eftir að svara. Til okkar hefur t.d. leitað þriðji aðili sem hefur áhuga á að setja upp og reka hleðslustöðvar á bílastæði Smáralindar.“

Kringlan hefur farið aðra leið en þar er búið að setja upp 16 hleðslustöðvar í samvinn við Malbikunarstöðina. Um er að ræða hefðbundnar hleðslustöðvar, þ.e. ekki hraðhleðslustöðvar.

„Viðskiptavinir Kringlunnar munu geta fullhlaðið sína bíla á svona 3 til 4 klukkutímum en við sjáum fyrir okkur að þetta verði með því móti að viðskiptavinir komi og fái smá innskot meðan þeir versla í Kringlunni,“ segir Sigurjón Örn Þórsson, framkvæmdastjóri Kringlunnar.

Hann útilokar ekki að settar verði upp fleiri hleðslustöðvar á næstu árum en ekki eru áform uppi um að setja upp hraðhleðslustöð. Það er þó ekki útilokað að hans mati.

„Hægt verður að fylgjast með hleðslunni á sérstöku appi og viðskiptavinir okkar munu þannig geta fylgst með hleðslunni. Það mun líka nýtast þegar tekið verður gjald fyrir hleðsluna en núna kostar ekkert að hlaða bílinn.“

Hleðslustöðvar Kringlunnar eru slíkar að viðkomandi bíleigandi verður að vera með hleðslusnúru í bílnum til að hægt sé að nota þær.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: