Dr. Leður leysir vandann

„Ég legg áherslu á að fólk þurfi bara að koma ...
„Ég legg áherslu á að fólk þurfi bara að koma á einn stað,“ útskýrir Óli. „Ég býð upp á mjög sérhæfða þjónustu og ef það þarf að láta bóna líka, djúphreinsa teppi eða hvað sem vera skal, þá klárum við það líka.“ mbl.is/Golli

Þeir vita sem til þekkja að það er bílum til prýði þegar sæti og innrétting eru leðurklædd. Það þarf hins vegar að hugsa um leðrið ef það á að haldast fallegt, og þar vill stundum verða misbrestur á. Þar kemur Dr. Leður til skjalanna.

Dr. Leður er fyrirtæki Ólafs Geirs Magnússonar, en hann stofnaði fyrirtækið árið 2008.Ólafur – eða Óli eins og hann er kallaður – er lærður húsgagnabólstrari, útskrifaður í faginu árið 1988 og hefur sérhæft sig í viðgerðum á leðri síðan 1992. Hann er því eldri en tvævetur þegar kemur að leðrinu, eins og heyrist þegar við tökum tal saman.

Klárar allan pakkann

Þótt leðurumhirða og viðgerðir þar að lútandi séu miðdepill starfseminnar bjargar hann fleiru ef á þarf að halda.

„Ég legg áherslu á að fólk þurfi bara að koma á einn stað,“ útskýrir Óli. „Ég býð upp á mjög sérhæfða þjónustu og ef það þarf að láta bóna líka, djúphreinsa teppi eða hvað sem vera skal, þá klárum við það líka. Fyrir bragðið er nóg að gera hjá okkur því fyrir utan fólksbílana sem koma til okkar fáum við fjöldann allan af atvinnubílstjórum og leigubílstjórum, ásamt því að ég sé um að þrífa sætin í öllum flugvélum Icelandair.“ Dr. Leður kallar semsé ekki allt ömmu sína í þessum efnum, það blasir við.

En rétt eins og kúnnarnir eru margir og á margvíslegum farartækjum hlýtur ástandið á leðrinu sem kemur inn til meðhöndlunar að vera á öllum mögulegum stigum? Óli tekur undir það og kímir við.

„Við fengum einu sinni til okkar Toyota Land Cruiser jeppa árgerð 1980, ekinn um 1.300 þúsund kílómetra. Sætin í honum voru fúin til fjandans en það var samt sem áður hægt að laga það.“

Sjálfsagt hjálpar það í svona tilfellum að vera bæði bjartsýnn að eðlisfari og hámenntaður bólstrari; Óli er auðheyrilega hvorttveggja.

Mikilvægt að hugsa vel um leðrið

Með tíð og tíma er óhjákvæmilegt að leita til sérhæfðra fagmanna á borð við Óla og félaga hjá Dr. Leðri en engu að síður geta bifreiðaeigendur lagt sitt af mörkum til að lengja líftíma leðursins í sætunum og hámarka fegurð þess.

„Með því að koma til okkar og kaupa sérstaka leðurfeiti til að bera á sætin má gera leðrinu í bílnum geysilega gott,“ bendir Óli á. „Í raun er nauðsynlegt að meðhöndla leðursætin tvisvar á ári með þessu móti. Sumum finnst erfitt að muna það eftir því sem líður á árið en ég segi þá við fólk: berðu á leðrið þegar sól hækkar á lofti og svo aftur fyrir jólin. Og þá er fólk – og einkum bíllinn þess – í mjög góðum málum.“

Þegar að því kemur svo að mæta með bílinn til sérfræðinganna segir Óli að þeir félagarnir í fyrirtækinu leggi sig fram við að vinna fljótt og vel.

„Ef við byrjum á bíl að morgni skilum við honum síðdegis. Fólk þarf í raun bara að gefa okkur daginn. Fyrir sumar viðameiri aðgerðir erum við að skila bílnum af okkur um eittleytið eftir hádegi daginn eftir að við byrjum á honum. En svo geta atvinnubílstjórar líka pantað hjá okkur flýtiþjónustu.“ Áhugasömum má benda á Facebook-síðu fyrirtækisins sem og heimasíðuna www.drledur.is en þar má sjá „fyrir“ og „eftir“ myndir af leðursætum í bíl sem tekin hafa verið til meðhöndlunar.

Og það er nóg að gera á verkstæðinu við Krókháls 4. „Heldur betur,“ segir Óli. „Hér erum við alltaf í sólskinsskapi því það er alltaf nóg að gera.“

jonagnar@mbl.is

Munurinn fyrir og eftir meðhöndlun er býsna áberandi. Hér er ...
Munurinn fyrir og eftir meðhöndlun er býsna áberandi. Hér er sætið fyrir meðhöndlun. mbl.is/Golli
Munurinn fyrir og eftir meðhöndlun er býsna áberandi. Hér er ...
Munurinn fyrir og eftir meðhöndlun er býsna áberandi. Hér er sætið eftir meðhöndlun. mbl.is/Golli
Fyrir og eftir - ótrúlegt en satt!
Fyrir og eftir - ótrúlegt en satt! mbl.is/Golli
Fyrir og eftir - ótrúlegt en satt!
Fyrir og eftir - ótrúlegt en satt! mbl.is/Golli
Allt er til staðar til að bjarga hvaða tjóni sem ...
Allt er til staðar til að bjarga hvaða tjóni sem er. mbl.is/Golli
Þeir sem prófa sérbruggaða sápuna hjá Dr Leður einu sinni, ...
Þeir sem prófa sérbruggaða sápuna hjá Dr Leður einu sinni, vilja ekki prófa neitt annað þaðan í frá. mbl.is/Golli
Nóg er að gera hjá þeim félögum, bæði fyrir einstaklinga ...
Nóg er að gera hjá þeim félögum, bæði fyrir einstaklinga og fyrirtæki – einnig flugfélag! mbl.is/Golli