Notkun hleðslustöðva við Kringlu margfaldast

Í lok síðasta árs tók Kringlan í notkun tólf hleðslustöðvar frá Ísorku, dótturfélagi Íslenska gámafélagsins. Hafa viðtökurnar verið góðar og notkun hleðslustöðvanna aukist hratt á milli mánaða. Í tilkynningu frá Ísorku segir að í janúar hafi um 305 kílówattstundir af rafmagni farið í gegnum stöðvarnar, og bílar hlaðnir í 3.377 mínútur. Í mars var notkunin komin upp í 1.071 kílówattstundir og mínútufjöldinn upp í 13.122. Var notkunin svipuð í apríl og maí.

Býður Kringlan starfsmönnum og viðskiptavinum að hlaða rafbíla sína ókeypis. Eru stöðvarnar við innganginn næst verslun Hagkaupa, og við innganginn næst Lyfju, og staðsetningarhnitin merkt í smáforriti Ísorku.

Sigurður Ástgeirsson, verkefnastjóri orkulausna hjá Íslenska gámafélaginu segir að Ísorka bjóði upp á rafhleðslustöðvar fyrir vinnustaði, einbýli og fjölbýli, og geti sniðið að kröfum og þörfum á hverjum stað. „Hægt er að fylgjast með allri raforkunotkun í hleðslustöðvunum í gegnum Ísorku ásamt því að vera með aflstýringu og álagsstýringu.“

Zophanias Sigurðsson, tæknistjóri Kringlunnar, segir að verslunarmiðstöðin hafi sett sér metnaðarfull markmið í umhverfisvernd og að uppsetning rafhleðslustöðvanna sé liður í því starfi. „Viðtökurnar sýna að þörfin er greinilega að aukast og viðskiptavinir kunna vel að meta þjónustuna.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: