Montoya setti hraðamet á Bugatti

Juan Pablo Montoya, fyrrum keppandi í formúlu-1, setti heimsmet um helgina á Bugatti Chiron ofurbíl. Er hann fyrstur manna til að aka raðsmíðabíl á 400 km/hraða; á bíl til aksturs á vegum en ekki bara kappakstursbrautum.

Metið er fólgið í því að taka af stað úr kyrrstöðu og ná 400 km ferð og bremsa síðan sem fljótast. Það tókst honum að ljúka á 41,96 sekúndum en á þeim tíma lagði hann að baki 3,1 kílómetra.

Montoya keppti í hinum bandaríska systurkappakstri formúlu-1 og síðar í NASCAR að lokinni keppni í formúlu-1. Varð hann bandarískur meistari í Indycar kappakstrinum en helstu afrek hans eru þó sigur í Indianapolis 500 kappakstrinum og það tvisvar. Þá hefur hann þrisvað hrósað sigri í sólarhringskappakstrinum í Daytona í Flórída og í formúlu-1 vann hann meðal annars Mónakókappaksturinn.

1500 hestöfl

„Þetta var frábært að sjá að það þarf ekki mikinn og flókinn undirbúning eins og í kappakstri þegar lagt er til atlögu við 0-400-0 metið. Þetta var allavega auðvelt og létt á Chiron, setjast bara um borð og taka af stað. Stórkostlegt,“ sagði Montoya. Hann hafði ekki fyrir því að skrýðast keppnisgalla og hjálmi, heldur mætti til leiks í gallabuxum og á hvítri skyrtu.   

Næst mun franska Bugatti-smiðjan freista þess að slá hraðasta met framleiðslubíls sem hljóðar upp á 431,072 km/klst. Það met setti Bugatti Veyron ofursportbíll árið 2010.

Í aflrás Bugatti Chiron er að finna átta lítra og 16 strokka w-laga vél sem skilar 1.500 hestöflum til hjólanna. Í metakstrinum náði Montoya 100 km ferð eftir 2,4 sekúndur, 200 km eftir 6,1 sekúndu, 300 km eftir 13,1 sekúndu og loks 400 km eftir 32,6 sekúndur.

Náði 420 km hraða

Meðan hann var í æfingabrautinni löngu prófaði Montoya hvað koma mætti bílnum á mikla ferð og sýndi hraðamælirinn um stund 420 km/klst. Er það meiri hraði en hann náði nokkru sinnum í kappakstri í formúlu-1, Indycar og NASCAR.

Bugatti Chiron er arftaki Veyron-bílsins en hann er nefndur eftir franska ökumanninum Louis Chiron, sem keppti fyrir Bugatti á fjórða áratug síðustu aldar. Er hann elsti ökumaðurinn til að keppa í formúlu-1. Var hann 56 ára gamall er hann vann það afrek árið 1955 og varð sjötti í mark í Mónakó.

Meðfylgjandi myndskeið er frá hraðameti Bugatti Chiron og Montoya:

mbl.is