Bronco og Blazer birtast senn aftur

Tvö gamalkunn bílmódel eru við það að ganga í endurnýjun lífdaga eftir nokkurt hlé. Nöfnin hringja strax bjöllum hjá mörgum því hér er um að ræða Ford Bronco og Chevrolet Blazer.

Bronco var fyrsti jeppi Ford og kom á götuna árið 1966. Með tilkomu hans varð til algjörlega nýr markaður fyrir bíla í Bandaríkjunum. Hann var framleiddur sem meðalstór jeppi fram til ársins 1977 án lítilla breytinga á yfirbyggingu og útliti. Hönnunin hélt sér meira og minna óbreytt þótt á smíðatímanum kæmu til aflstýri, diskabremsur og stærri vél. Á árunum 1978 til 1996 var Bronco smíðaður sem fullvaxta tvennra dyra jeppi.

Mikið er um endursmíði bíla frá tímabilinu 1966-1977 og stór markaður fyrir parta í þau módel. Á árunum 1978 til 1996 urðu meiri breytinar og fleiri útgáfur smíðaðar af Bronco en áður. Framleiðslu hans var svo hætt árið 1996 og kom Ford Expedition í hans stað.

Fyrsta fæðing andvana

Á bílasýningunni árlegu í Detroit snemma árs 2004 birtist nýr Bronco hugmyndajeppi er greinilega sótti ýmislegt í útlitinu til forverans. Hann var með nýja dísilvél, sex hraða gírkassa og nýtt og stöðugra og sparneytnara fjórhjóladrif. Fallið var frá áformum um að taka aftur upp smíði Bronco er Ford Escape var kynntur til sögunnar. Þótti þá ólíklegt að Bronco yrði tekinn aftur í framleiðslu.

Á því varð breyting 9. janúar síðastliðinn er tilkynnt var á bílasýningunni í Detroit að Bronco myndi eftir allt fara í framleiðslu og koma á götuna árið 2020 sem meðalstór jeppi, stærðinni undir Expedition. Verður hann hannaður nýr frá grunni og smíðaður í sömu bílsmiðju í Michigan og upprunalegi Bronco-inn var framleiddur í. Frumgerð hinnar nýju kynslóðar er ósmíðuð en hafnar eru akstursprófanir á ýmsum íhlutum hans í öðrum bílum Ford og hafa birst svonefndar njósnamyndir af slíkum reynsluakstri.

Blazer á undan

Búast má við að endurlífgaður Chevrolet Blazer komi um ári fyrr á götuna, eða 2019, samkvæmt áformum Chevrolet. Hann var smíðaður í grunnútgáfunni K5 frá 1969 til 1999 og öðrum útgáfum til 2005. Bíll þessi hefur átt stað í hjörtum margra sem eflaust munu fagna þeirri ákvörðun að endurreisa Blazer til sinnar fyrri frægðar.

Frumgerð hins nýja Blazer verður kynnt á næsta ári og kemur á götuna sem árgerð 2019. Verður hann í flokki svonefndra crossover-bíla, þ.e. með kostum jeppa en þægindum fólksbíla. Hann verður ekki gerður til utanvegaraksturs heldur er honum ætlað að höfða til mun stærri markaðar sem fjölskyldubíll. Þegar hefur verið ljóstrað upp að hann verði í grunnútgáfunni búinn 2,5 lítra fjögurra strokka vél. Í dýrari útgáfu fái hann afl frá 3,6 lítra V6-vél.

Þykja tæknilegar upplýsingar sem birtar hafa verið benda til þess að Blazer muni mörgu deila með annarri kynslóð GMC Acadia, meðal annars undirvagni og grind, og taka sjö manns í sæti. Að stærð mun Blazer annars falla á milli stallbræðranna Equinox og Traverse.