Innkalla Mitsubishi Pajero vegna öryggispúða

Mitsubishi Motors innkallar Mitsubishi Pajero
Mitsubishi Motors innkallar Mitsubishi Pajero

Hekla hefur tilkynnt innköllun á Mitsubishi Pajero árgerð 2007 til 2012 vegna öryggispúða frá framleiðandanum Takata. Frá þessu er greint á vef Neytendastofu. Ástæða innköllunarinnar er að ef árekstur uppfyllir skilyrði til að öryggispúði eigi að blása út geta málmflísar losnað og valdið meiðslum á farþegum. 

Bilunin hefur ekki komið fram í bílum frá Mitsubishi Motors. Í bílum frá öðrum framleiðendum með öryggispúða frá Takata hefur þessi galli aðeins komið fram í löndum þar sem hita- og rakastig er hátt og er óþekkt í Evrópu.

Viðgerð felst í að skipt verður um púðahylki fyrir öryggispúða í stýri og í mælaborði. Hekla hf. hefur selt 460 bíla sem falla undir þessa innköllun. Eigendum þeirra verður sent bréf þegar varahlutir koma til landsins.

Neytendastofa hvetur bifreiðaeigendur sem eru í vafa um hvort verið sé að innkalla þeirra bifreiðar til að hafa samband við Heklu.

mbl.is