Nýr Nissan Leaf er besta nýsköpunin

Nissan Leaf hinn nýi.
Nissan Leaf hinn nýi.

Nýjasta kynslóð rafmagnsbílsins Nissan Leaf, sem kemur á Evrópumarkað í lok ársins,  hlaut í vikunni SÍN fyrstu alþjóðaverðlaunin sem „Besta nýsköpunin“ að mati Tækniþróunarsamtaka neytenda í Bandaríkjunum.

Greint var frá verðlaunum á fjölmennri samkomu tæknisérfræðinga CES í New York þar sem Leaf 2018 hlaut aðalverðlaun hátíðarinnar.

Sérstaklega var tekið til tveggja af nýjustu tæknilausnunum sem nýr Leaf er búinn, en það eru sjálfvirknikerfið ProPILOT, sem aðstoðar ökumanninn við aksturinn, og bremsunæmi orkupedallinn e-Pedal sem hægir á bílnum lyfti ökumaðurinn fætinum af gjöfinni.

Sérfræðingar Nissan segja að í 90% tilfella nægi notkun e-Pedal til að hægja á og stöðva bílinn.

Tæknihátíð CES í New York er einskonar upphitun fyrir aðalhátíð samtakanna sem haldin er í janúar ár hvert í Las Vegas, en þá munu CES og Nissan halda sérstaka kynningu á Leaf í tilefni verðlaunanna sem bíllinn hlaut í NY í vikunni.

Hjá BL í apríl

Leaf fór fyrst í almenna sölu árið 2010 og er hann lang söluhæsti rafmagnsbíllinn á markaðnum. Ekkert lát er á vinsældunum ef marka má viðbrögð markaðarins við nýja bílnum því nú þegar hafa hátt í tíu þúsund bílar verið forpantaðir, þar af um fjögur þúsund á Evrópumarkaði.

Gert er ráð fyrir að Nissan leaf 2018 komi í sýningarsalinn hjá BL við Sævarhöfða í apríl næstkomandi.

mbl.is