Sjö bílar komast í úrslit

Bílunum sem keppa um sæmdartitilinn „Bíll ársins í Evrópu“ 2018 hefur verið fækkað niður í sjö sem keppa til úrslita. Verður niðurstaða valsins kynnt á bílasýningunni í Genf í mars nk.

Úrslitabílarnir sjö eru - í stafrófsröð:

Alfa Romeo Stelvio
Audi A8
BMW 5 Serían
Citroen C3 Aircross
Kia Stinger
Seat Ibiza
Volvo XC40

Í dómnefnd verðlaunanna starfa 60 manns víðs vegar að úr álfunni. Talið er að keppnin um hnossið sé nokkuð opin og allt eins megi gera ráð fyrir að nýr bílsmiður hampi viðurkenningunni. Af þeim sjö sem nú eru tilnefndir hafa fjórir þeirra aldrei unnið Evróputitilinn.

Alfa Romeo átti Giulia í úrslitum síðast en varð að sætta sig við að verða í  öðru sæti, á eftir  Peugeot 3008. Nú er það Stelvio sem ætlað er að halda merkinu á lofti en það er fyrsti jeppinn úr smiðju ítalska bílsmiðsins. Alfa Romeo hefur unnið viðurkenninguna eftirsóttu, eða árið 2001 með 147-bílnum.

Fari frumburður fjórðu kynslóðar Audi A8 með sigur af hólmi myndi það binda endi á rúmlega þriggja áratuga bið bílsmiðsins sem síðast vann árið 1983.

C3 Aircross ver heiður  Citroen sem átti einnig úrslitabíl í fyrra. Citroen vann titilinn síðast 1990.

Það kann að hljóma undarlega en BMW hefur aldrei hampað Evróputitlinum en bindur nú vonir sínar við G30 5 seríuna.

Hinn tilkomumikli Kia Stinger gæti svo komið á óvart, margir veðja á hann. Spænski bílsmiðurinn Seat hefur aldrei unnið titilinn en stendur vel að vígi með frumburði fimmtu kynslóðar Ibiza. Litlu munaði að Volvo hreppti titilinn 2016 með XC90 og spurningin er hvort sænski bílsmiðurinn geri betur með XC40.

Síðast hlaut franski bílsmiðurinn Peugeot titilinn fyrir 3008-bílinn, Alfa Romeo varð í öðru sæti með Giulia og í þriðja sæti varð Mercedes-Benz E-Class.


mbl.is