Renault er rafbílasmiður ársins

GreenFleet verðlaunin 2017 voru afhent í vikunni og í ár féllu þau í skaut Renault sem
framleiðir breitt úrval rafbíla fyrir einstaklinga og fyrirtæki á hagstæðu verði að mati
ritstjóra GreenFleet Magazine, Angela Pisanu.

Á alþjóðlegum bílamarkaði býður Renault sex mismunandi gerðir rafknúinna fólks- og sendibíla, þar af fjóra í Evrópu. Söluhæsti rafbíllinn í Evrópu er hinn margverðlaunaði Renault Zoe sem dregið getur allt að 400 km á hleðslunni við góðar aðstæður á nýrri 40 kWh rafhlöðu sem
kynnt var fyrr á þessu ári.

„Að mati Renault dregur Zoe að meðaltali um 300 km við venjulegar og fjölbreyttar aðstæður á hleðslunni yfir sumartímann á meginlandi Evrópu og um 200 km að meðaltali þegar mjög kalt er í veðri á veturna,“ segir í tilkynningu.
 
Annar vinsæll rafbíll frá Renault er litli sendibíllinn Kangoo ZE sem er vinsæll atvinnubíll meðal einyrkja og atvinnufyrirtækja. Hann kom á markað í rafknúinni útgáfu árið 2012 og hefur nú einnig fengið uppfærða 33 kWh rafhlöðu sem dregið getur rúma 280 km við góðar aðstæður, en það er mesta drægi rafknúinna sendibíla í þessum flokki á atvinnubílamarkaðnum.

Renault býður einnig sendibílinn Master í rafmagnsútgáfu, Master ZE sem einnig er búinn 33 kWh rafhlöðu við 76 hestafla rafmótor sem dregur á bilinu 145-160 km enda bíllinn talsvert stærri og burðarmeiri en Kangoo.

Auk þessara bíla má einnig nefna litla tveggja sæta rafknúna smáborgarbílinn Twizy sem Renault kynnti 2010. Hann er allt í senn mjög ódýr, hagkvæmur í rekstri og hentugur til notkunar í þröngum götum stórborga Evrópu, hvort sem er til persónulegra nota eða í atvinnuskyni enda fæst hann líka í sendibílaútgáfu.

Helsti rafbílaframleiðandinn

Þegar verðlaun Green Fleet voru kynnt gat Angela Pisanu þess að Renault væri helsti
rafbílaframleiðandinn í Evrópu og hefði kynnt markaðnum nýjar, öflugri og langdrægari
rafhlöður á árinu. Þær væru til þess fallnar að auka enn hlutdeild rafbíla á markaðnum
og sú þróun héldi án efa áfram því Renault hafi nýlega kynnt frekari nýjungar á þessu
sviði á næsta ári þegar enn langdrægari rafhlöður verða kynntar til leiks.

Verðlaun Green Fleet koma í kjölfar fleiri verðlauna sem Renault hefur hlotið fyrir
rafmagnsbíla sína, svo sem frá What Car? sem útnefndi Zoe besta rafmagnsbílinn 2017
og jafnframt besta notaða rafmagnsbílinn 2018. Þá útnefndi Autocar Zoe frumkvöðul
ársins 2017 og Parkers kaus hann þann umhverfisvænasta 2018.

Að síðustu má nefna að Zoe sigraði nýlega í samkeppninni „Pure Electric and Hybrid
Cars Green Apple Champion 2017“ sem Green Organisation héldu nýlega í þriðja sinn.

mbl.is