Toyota hefur selt 43% fleiri tvinnbíla í ár en í fyrra

Toyota Yaris er vinsæll tvinnbíll.
Toyota Yaris er vinsæll tvinnbíll. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sala á tvinnbílum Toyota hefur aukist um 43% milli ára. Árið 2016 seldi Toyota á Íslandi 594 tvinnbíla en í ár seldist 851 bíll búinn þeirri tækni.

Þessari aukningu er náð þrátt fyrir að bílaleigur, sem eru stærstu viðskiptavinir bílaumboðanna, kaupi ekki tvinnbíla eða bíla sem falla í sama flokk hvað umhverfisvernd varðar, vegna þess að þeir bera lág eða engin vörugjöld og bílaleigur geta því ekki hagnast á niðurfellingu vörugjalda af þeim.

Yaris var mest seldi tvinnbíll Toyota en alls seldust 307 slíkir bílar á árinu. Þar á eftir kom RAV4 en 214 slíkir hafa selst á árinu, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.