„Ísinn leyfir fleiri mistök en malbikið“

Brynjar Smári Þorgeirsson komst hraðast allra á ísnum í dag …
Brynjar Smári Þorgeirsson komst hraðast allra á ísnum í dag á fjórhjólabílnum sínum. Ljósmynd/Guðbjörg Ólafsdóttir

Ekið var á ísi­lögðu Rauðavatni í morg­un. Kvart­mílu­klúbbur­inn stóð að viðburðinum og höfðu all­ir fé­lags­menn með reynslu af kapp­akstri kost á að taka þátt. Tólf ökumenn slógu til og töluverður fjöldi fylgdist með.

„Þetta var bara fín tilbreyting frá malbikinu, stórgott alveg. Ísinn leyfir fleiri mistök en malbikið,“ segir Brynjar Smári Þorgeirsson, einn ökumannanna sem tók þátt í dag.

Ísaksturinn í dag var hugsaður frekar sem æfing en keppni, þó svo að tímataka hafi farið fram. „Þetta var í rauninni bara æfing, við munum keppa í sumar í tímaati á nýju brautinni í Hafnarfirði, en sami tímatökubúnaður var notaður núna.“

Ísinn var ansi blautur eftir rigningu næturinnar. Það gerði aksturinn …
Ísinn var ansi blautur eftir rigningu næturinnar. Það gerði aksturinn hins vegar bara skemmtilegri að sögn ökumanna. Ljósmynd/Guðbjörg Ólafsdóttir

Brynjar segir að miðað við þátttöku og fjölda áhorfenda í dag er nokkuð ljóst að ísaksturinn verður endurrekinn við fyrsta tækifæri. „Ef þetta verður að alvörukeppni er ég viss um að menn muni gíra sig upp í það,“ segir Brynjar sem vonast til þess svo hægt verði að lengja keppnistímabilið í akstursíþróttinni og nýta veturinn.   

Skiptir máli að vera „rétt skóaður“

Þetta var í fyrsta sinn sem Brynjar prófaði að keyra á ís. „Þetta var bara geggjað og allt annar fílingur,“ segir hann, en Brynjar er ríkjandi Íslandsmeistari í opnum götubílaflokki. „Þetta er ekkert ólíkt malbikinu, ef þú ert rétt skóaður eins og sagt er.“ Við aksturinn notaði hann sérstaka ísnagla, en hann keyrði fjórhjólabíl eða svokallaðan „buggy“-bíl.

„Bíllinn er meira sniðinn fyrir fjallaakstur og jeppaferðir, en hentar greinilega mjög vel í þetta líka. Það er búið að eiga all hressilega við hann en þetta kom mjög vel út.“ Brynjar náði besta tíma í brautinni ásamt Fannari Þór sem ók á Volvo.

Fram undan hjá Brynjari eru fleiri fjallaferðir á buggy-bílnum áður en keppni hefst á ný í vor í hringakstri, tímaati og kvartmílu í sumar.

Hér má sjá myndband sem ánægður áhorfandi birti af ísakstrinum í dag:


 

Ökutæki af ýmsum gerðum spreyttu sig á ísilögðu Rauðavatni í …
Ökutæki af ýmsum gerðum spreyttu sig á ísilögðu Rauðavatni í dag. Ljósmynd/Guðbjörg Ólafsdóttir
Tólf ökumenn tóku þátt í ísakstri á Rauðavatni í dag.
Tólf ökumenn tóku þátt í ísakstri á Rauðavatni í dag. Ljósmynd/Guðbjörg Ólafsdóttir
mbl.is