Ævintýrabíllinn Toyota FT-AC

Á bílasýningu sem nú stendur yfir í Los Angeles í Bandaríkjunum frumsýndi Toyota nýjan bíl á heimsvísu, svonefndan ævintýrabíl að nafni FT-AC, sem þó er enn á hugmyndastigi.

Er þar um að ræða nokkurs konar bræðing sem er mitt á milli þess að vera jeppi og stallbakur.

FT-AC er nokkuð stórger að útliti en undir yfirborðinu leynist athyglisverður búnaður. Víða er að finna myndavélar sem ökumaður getur brúkað til að taka upp ævintýrin sem hann ratar í á bílnum. Þær er m.a. að finna í hliðarspeglunum og eru þær að hluta til með innrauða getu til að gera upptökur í lélegu skyggni eða myrkri kleifar. Hafa myndavélarnar og stuðning af led-ljósum á framendanum sem nýtast sem leifturljós við myndatöku. Samtvinnaður þráðlaus wifi-gagnaflutningur getur hlaðið upptökurnar sjálfvirkt til netskýja.

Með innbyggða hjólagrind

Þessi búnaður gerir og vinum og vandamönnum kleift að taka á móti beinum straumi efnis frá bílnum í rauntíma.

Standi hugur kaupenda bílsins til hjólaferða þurfa þeir ekki að festa sér sérstaka burðargrind því hún er fyrir hendi, innbyggð í bílinn. Skýst hún út úr afturendanum – og dregst aftur inn að lokinni notkun – á örfáum sekúndum.

Toyota hefur fátt gefið upp um mál FT-AC-bílsins og tæknilegar upplýsingar. Hjólhafið er sagt mikið, sporvíddin sömuleiðis og rífleg hæð undir lægsta punkt auðveldar akstur í margs konar umhverfi utanvegar. Efnismikil utanvegadekk eru undir honum, á 20 tomma felgum.

Tvinnbíll í framtíðinni

Aðalljósin eru úr díóðum og þokuljósin einnig, en þau má taka af og brúka sem ljós á reiðhjóli til ferðalaga í myrkri.

Undir vélarhlífinni er bensínvél og fjögurra hjóla drif með nýstárlegum vægisbreyti sem miðlar spyrnunni til viðeigandi dekkja í þeim tilgangi að hámarka rásfestu hvers og eins hjólanna fjögurra.

Í framtíðinni er líka í áætlunum Toyota að bjóða upp á bíl þennan fjölknúinn, þ.e. með rafmótor í aflrásinni auk bensínmótorsins.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: