Landsbjörg fékk 3,3 milljónir

Jón Ólafur Halldórsson, forstjóri Olís, afhenti Jóni Svanberg Hjartarsyni, framkvæmdastjóra ...
Jón Ólafur Halldórsson, forstjóri Olís, afhenti Jóni Svanberg Hjartarsyni, framkvæmdastjóra Slysavarnafélagsins Landsbjargar, ávísun að upphæð 3,3 milljónir króna við þjónustustöð Olís við Ánanaust í gær. Félagar í Slysavarnafélaginu Landsbjörg stilltu sér upp með þeim.

Alls söfnuðust 3,3 milljónir króna til Slysavarnafélagsins Landsbjargar í átaki sem Olíuverzlun Íslands stóð fyrir dagana 28. og 29. desember sl. Þessa tvo daga runnu 5 krónur af hverjum seldum eldsneytislítra hjá Olís og ÓB til Landsbjargar. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

 Björgunastarf kostar talsvert

„Við erum þakklát fyrir þann góða stuðning sem Olíuverzlun Íslands sýnir félaginu, bæði með þessu átaki, sem og að vera einn af aðalstyrktaraðilum þess undanfarin 5 ár. Þrátt fyrir að allt starfið sé unnið í sjálfboðavinnu kostar mikla fjármuni að halda úti öflugu slysavarna- og björgunarstarfi um land allt. Það er alveg ljóst að án stuðnings almennings og fyrirtækja í landinu mætti starf Slysavarnafélagsins Landsbjargar sín lítils enda kallar úthald björgunarsveita, þjálfun og uppbygging tækjabúnaður þeirra á mikinn tilkostnað,“ segir Jón Svanberg Hjartarson, framkvæmdastjóri Slysavarnafélagsins Landsbjargar enn fremur í tilkynningunni.

Landsmenn styðja við bakið á Landsbjörgu 

„Við erum afar stolt og ánægð að afhenda Slysavarnafélaginu Landsbjörg þessa fjárhæð og þökkum jafnframt viðskiptavinum okkar fyrir að hafa tekið þátt í þessu góða átaki með okkur. Samtökin hafa innan sinna raða þúsundir sjálfboðaliða sem vinna ómetanlegt starf og það er ánægjulegt að sjá hve landsmenn voru reiðubúnir að styðja við bakið á þeim með þessu framlagi,“ segir Jón Ólafur Halldórsson, forstjóri Olís. Jafnframt því að 5 krónur af hverjum seldum eldsneytislítra runnu til samtakanna fengu viðskiptavinir Olís og ÓB einnig 17 króna afslátt af eldsneytislítranum þessa tvo daga.

mbl.is