Nýr Mustang Bullitt frumsýndur

Nýr Ford Mustang Bullitt var frumsýndur í gær í bílaborginni Detroit í Michiganríki í Bandaríkjunum.

Þar var í aðalhlutverki barnabarn leikarans Steve McQueen, Molly McQueen sem hér er að stíga út úr bílnum á aðalsviði alþjóðlegu norður-amerísku bílasýningarinnar árlegu í Detroit.

Nýi bíllinn er býsna líkur forveranum, með 5,0 lítra V8-vél undir húddinu er býður upp á 475 hestöfl. Dugar það til að koma „kúlunni“ á allt að 260 km hraða, sem er 13 km meiri hraði en hinn hefðbundni Mustang GT nær. Munar þar um sportpústgrein, Shelby soggrein og sérstakar stillingar í rafeindastýringum.

Rúmlega 5.100 blaðamenn sækja sýninguna heim og skrifa um það  sem þar gefur að líta. Henni lýkur 28. janúar næstkomandi.

mbl.is