Keppir í ralli í Bretlandi

Ungur íslenskur rallökumaður, Gunnar Karl Jóhannesson, verður meðal keppenda á breska meistaramótinu í rallakstri í ár. Á dagskrá hans eru sex mót á tímabilinu mars til október.

Gunnar Karl hefur sett upp netsíðu og facebooksíðu til að kynna sig en hann er á förum til Bretlands. Fyrsta bílprófunin þar fer fram um komandi helgi, 10. og 11. febrúar.

Við af því tekur keppni í Cambrian rallinu í Norður Wales 17. febrúar sem upphitun fyrir keppni í bresku mótaröðinni, sem telur sex mót. Í öðru slíku æfingamóti keppir Gunnar Karl í Belgíu, svonefndu Seazone-ralli, sem fer eingöngu fram á malbiki.

Mótin eru víða, í Skotlandi, Englandi, Belgíu, Írlandi, á eynni Mön og lokamótið fer svo fram samhliða keppni í HM í ralli í Wales í október.

Gunnar Karl er 21 árs og keppir í svo kölluðum cadet-flokki í bresku mótaröðinni sem er fyrir yngstu ökumennina. Sá flokkur telst einnig í keppni í unglingameistaramótinu breska í ralli.
Ekur hann á svonefndri R2-bifreið í nafni M.E. Motorsport,  nýlega smíðaðri Ford Fiesta.

mbl.is