Froskarnir fá forgang

Yfirvöld í heimabæ heimskautakönnuðarins Jean-Baptiste Charcot, sjóræningjaborginni Saint-Malo, hafa lokað götu á bæjarmörkunum fyrir bílum.

Tilgangurinn með því er að auðvelda körtum mökun á sérstöku náttúruverndarsvæði á Varde-tanga í austurjaðri borgarinnar. Verður bílum bannaður akstur frá 15. janúar til 15. mars svo körturnar hafi frið til eðlunar.

Í fyrra kom í ljós að verulega hátt hlutfall froskanna drapst á leið sinni til mökunarsvæðanna við tangann. Kenna yfirvöld bílaumferð um. Körtur og kambsalamöndrur, sem eru í útrýmingarhættu á heimsvísu, hafa vanið sig á að makast á votlendissvæði, La Mare, handan vegarins út á Varde-tanga. Við talningu um miðjan febrúar í fyrra voru rúmlega þúsund dýr á æxlunarstöðvunum við Litluhafnagötu, la rue des Petits Ports.

mbl.is