Magnaður rafjeppi

Sprotafyrirtæki að nafni Byton mætti til leiks á rafeindatækjasýninguna í Las Vegas í byrjun ársins (CES) með þróunareintak af rafjeppa með sama nafni. Staðhæft er að drægi hans verði rétt rúmlega 500 kílómetrar.

Byton-jeppinn vakti mikla athygli enda meðal annars búinn tæknibúnaði til sjálfaksturs og myndavélum er greina andlit ökumanns. Þá þótti innanrými hans minna á setustofu fremur en farþegarými bíls. Er gólfið til að mynda lagt parketi og sæti leðurklædd og snúanleg. Í stað mælaborðs verður rúmlega eins meters breiður upplýsingaskjár auk lítils flatskjár á stýrinu. Þá verða tveir skjáir við aftursætin og á þeim má stjórna ýmsum aðgerðum með handahreyfingum hvaðan sem er úr innanrýminu.

Áætlanir kveða á um, að Byton komi á götuna í Kína fyrst, eða fyrir árslok 2019. Í framhaldinu kemur hann í sölu í Evrópu og Bandaríkjunum 2020. Forstjórinn Daniel Kirchert segir jeppann verða fyrsti úrvals rafbíllinn sem verður flestum viðráðanlegru í verði og uppfylli þarfir sem fyrsti fjölskyldubíllinn.

Verðmiðinn á hins meðalstóra jeppa verður um 45.000 dollarar, sem jafngildir um 4,6 milljónum króna. Hann verður framleiddur í Nanjing í Kína. Af hálfu Byton er talað um jeppann sem SIV-bíl í stað jeppaskammstöfunarinnar SUV. Stendur það fyrir „Smart Intuitive Vehicle“ til marks um nýjar lausnir bílsmiða og framleiðenda stafræns tæknibúnaðar til að flytja fólk milli staða.

Rafhlöðu Byton má hlaða að fjórum fimmtu á aðeins 30 mínútum. Í boði verða tveir rafmótorar. Annars vegar verður aðeins um drif á afturhjólum að ræða með 200 kW mótor er skilar 400 Newtonmetra togi. Rafgeymir þessa bíls verður 71 kílóvattstundir að stærð drægi hans verður 400 km.

Hins vegar býðst einnig 350 Kw vél með 710 Nm togi og verður bíll með þeirri aflrás með drif á öllum fjórum hjólum. Rafgeymir hans verður stærri eða 95 kWh og drægið 520 km.

Þróunarbíllinn, sem er þegar ökufær, er 4,85 metra langur og undir honum dekk á 22 tommu felgum. Byton er ennfremur að þróa rafknúinn stallbak og rafdrifinn fjölnotabíl (MPV) á sama undirvagni og rafjeppinn er byggður upp af. ­Þeir eru sagðir koma á götuna eftir 2021.

mbl.is