Nýr Kia Ceed kynntur til leiks

Kia Ceed hinn nýi.
Kia Ceed hinn nýi.

Nýr Kia Ceed var kynntur til leiks í gær en bíllinn verður frumsýndur með viðhöfn á bílasýningunni í Genf í næsta mánuði. Þetta er þriðja kynslóð Kia Ceed hlaðbaksins sem kemur nú í talsvert breyttri mynd.

Hann hefur fengið nýtt útlit að innan sem utan og þá hefur ýmsum tækninýjungum verið bætt við bílinn sem gera hann enn betri í akstri og öruggari. Einnig mun nýr Ceed hafa stærra skott og enn meira rými fyrir farþega og bístjóra.

Meðal véla sem eru í boði í nýjum Kia Ceed eru ný 1,4 lítra, 140 hestafla T-GDI bensínvél og ný U3 1,6 lítra dísilvél sem skilar annars vegar 115 hestöflum og hins vegar 136 hestöflum. Togið í dísilvélinni er 280 Nm.

Nýr Kia Ceed verður búinn nýjustu aksturs- og öryggiskerfum frá Kia og kemur með 7 ára ábyrgð eins og aðrir bílar frá Kia. Stefnt er að því að hefja framleiðslu á bílnum í maí en hann verður kynntur á Íslandi næsta haust.

Nýr Kia Ceed er hannaður og smíðaður sérstaklega fyrir Evrópumarkað í verksmiðju Kia í Zilina í Slóvakíu. Síðan bíllinn kom fyrst á markað árið 2006 hafa selst rúmlega 1,8 milljónir eintaka af honum. Þar af hafa selst rúmlega 640 þúsund eintök af annarri kynslóð bílsins sem kom á markað árið 2012.

mbl.is