Hekla frumsýnir Skoda Karoq

Glænýi jepplingurinn Skoda Karoq verður frumsýndur hjá Heklu á laugardaginn kemur, 24. febrúar. Athöfnin fer fram  í sýningarsal Skoda að Laugavegi 170 – 174 og stendur frá kl. 12 til 16.

„Karoq er einstaklega rúmgóður, glæsilega útbúinn með allt að 1.630 lítra farangursrými, díóðu framljósum og er fyrsti bíllinn frá Skoda sem fæst með stafrænu mælaborði. Hann er með ríkulegan staðalbúnað og býður upp á lausnir og tækninýjungar sem gera aksturinn öruggari og skemmtilegri,“ segir í tilkynningu.

„Skoda hyggst breikka bílaflotann til muna næstu árin með ríka áherslu á að auka úrvalið á sportjeppamarkaði. Karoq kemur sterkur í kjölfar Kodiaq sem kom á markað í fyrra og hefur heldur betur slegið í gegn. Það er gaman að geta bætt í framboðið af fjórhjóladrifnum bílum og það með margverðlaunuðum bíl á borð við Karoq,“ segir Gestur Benediktsson sölustjóri Skoda.

Karoq hefur hlotið ýmsar viðurkenningar og varð hlutskarpastur í flokki jepplinga hjá tímaritinu Best Car?. Þá hefur honum hlotnast Autonis hönnunarverðlaun fyrir bestu nýju hönnunina í flokki sportjeppa. Sömuleiðis hlaut hann gullna stýrið í sínum flokki hjá þýska blaðinu Auto Bild. Þá skartar hann fimm stjörnum úr árekstrar- og öryggisprófunum hjá Euro NCAP.

Til Íslands kemur Skoda Karoq í Ambition og Style útfærslum og fæst bæði fram- og fjórhjóladrifinn. Í boði eru 1,0 og 1,5 lítra bensínvélar og 2,0 lítra dísilvélar.

mbl.is