„Galli“ í skráningu á bifreiðum

Nýjir bílar í Sundahöfn. Reglulega koma upp tilvik hér á ...
Nýjir bílar í Sundahöfn. Reglulega koma upp tilvik hér á landi þar sem fólk telur sig vera að kaupa yngri bíla en raun ber vitni. Hægt er að deila um hvað er nýr bíll. mbl.is/Árni Sæberg

Við uppgötvuðum þetta bara við fyrstu rukkun frá tryggingafélaginu. Þá sáum við að bíllinn var 2015-árgerð en ekki 2016-árgerð eins og við héldum, segir Jónas Óskarsson, faðir drengs sem keypti sér Toyota Aygo-bifreið fyrir tæpum tveimur árum.

Frétt Morgunblaðsins í síðustu viku um reglur um skráningu bifreiða hefur vakið talsverða athygli. Í henni kom fram að Félag íslenskra bifreiðaeigenda hefði um árabil gagnrýnt að skráning bifreiða væri ekki nógu ítarleg.

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, lýsti því að aðeins eitt af þrennu þyrfti að vera í skráningarvottorðinu; fyrsti skráningardagur, árgerð eða hönnunarár, eða framleiðsluár. Þetta geti valdið misskilningi og segir Runólfur í umfjöllun um mál sonar Jónasar í Morgunblaðinu í dag, að reglulega hefðu komið upp tilvik þar sem fólk teldi sig vera að kaupa yngri bíla en raun bar vitni.