Svart á toppnum

Opel Zafira í vinsælustu kápunni 2017, svartri.
Opel Zafira í vinsælustu kápunni 2017, svartri.

Forvitnilegt getur verið að fylgjast með litavali kaupenda nýrra bíla. Úttekt á því er til að mynda gerð árlega í Englandi. Vill valið breytast ár frá ári en 2017 var svart á toppnum.

Sérfræðingar eru sammála um það að litur hafi sérstök áhrif þegar kemur að endursölu fólksbíla. Getur hann bæði ráðið því hversu auðveld endursala er og ennfremur hefur liturinn áhrif á verð notaðra bíla.

Samtök fyrirtækja í bílgreinum (SMMT) hafa greint litaval á bílum fyrir árið 2017 og birt niðurstöður sem vitna um tíu vinsælustu bílalitina. Sex litanna réðu 95% markaðarins.

Í fyrsta sæti varð svartur en alls 515.970 nýskráðir bílar skörtuðu honum. Jafngildir það að fimmti hver nýr bíll hafi verið svartur í fyrra, eða 20,3% markaðarins. Er þetta í fyrsta sinn í fimm ár sem svart fer upp fyrir hvíta litinn að vinsældum.

Ekki langt á eftir í öðru sæti varð grái liturinn en hann prýddi 500.714 bíla, eða 19,7%. Var það vinsælasti bílaliturinn í Mið-Austurlöndum. Velti svart og grátt hvíta litnum úr efsta sæti 2016 í það þriðja 2017. Var sá litur á 482.099 bílum í fyrra eða 19% markaðarins. Hvítir bílar voru fjölmennastir 2013, 2014, 2015 og 2016. Á nýliðnu ári var hvítt uppáhaldslitur bílkaupenda í Norður-Englandi.

Fjórði vinsælasti bílaliturinn var blár en hlutdeild hans í markaðinum var 16%, eða 405.758 bílar. Bláir bílar hafa ekki verið í toppsæti litalistans frá 1999 en hafa verið í hópi 10 fremstu alla tíð. Blátt er eini frumliturinn í hópi fimm vinsælustu litanna þar sem rautt seig niður í sjötta sæti.

Í fimmta sæti varð svo silfurliturinn, en hann prýddi 10% seldra bíla eða 254.192 eintök. Hann var í efsta sæti milli 2000 og 2008. Þessi litur þykir traustur þegar kemur að endursölu.

Í sætum sex til tíu urðu rautt, 9,9% bíla, grænt, 1,1%, appelsínugult, brons og gult lakk. Bleikir bílar hafa ekki verið færri frá 2011 en aðeins 1.327 voru nýskráðir í þeim lit 2017.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: