Toyota RAV4 söluhæsti jeppi heims

RAV4 vekur athygli á jeppasýningu hjá Toyota í Garðabæ.
RAV4 vekur athygli á jeppasýningu hjá Toyota í Garðabæ. mbl.is/Árni Sæberg

Mest seldi jeppinn í heiminum öllum á nýliðnu ári, 2017, var Toyota RAV4. Ástæða þessa er að helsti keppinauturinn er seldur undir öðru nafni í Bandaríkjunum en annars staðar.

Að sögn gagnaveitunnar focus2move voru nýskráðir 2017 samtals 30 milljónir jeppa um veröld víða. Var um aukningu upp á 11,3% frá árinu áður að ræða. Nam skerfur jeppa í heildarsölu fólksbíla þriðjungi.

Meðalstórir jeppar, á lengdarbilinu 4,2 til 4,5 metrar, voru uppistaðan í jeppasölunni en hlutur þeirra var 57,2%. RAV4 er í þessum flokki en þótt hann eigi rætur að rekja til ársins 1994 hefur hann gengið í gegnum margar yfirhalningar að útliti, stærð og búnaði. Eru keppinautar hans enn fleiri nú en þá.

RAV4 tók í ár fram úr Honda CR-V sem var mest seldi jeppinn í fyrra og hittiðfyrra. Annar bíll hefði trónað á toppnum hefði Nissan ekki ákveðið að selja hann undir öðru nafni í Bandaríkjunum en annars staðar. Hér er um að ræða X-Trail, sem Bandaríkjamenn þekkja sem Rogue.

Tiguan upp og Tucson niður

Sala VW Tiguan jókst um 37,5% og klifraði þessi jeppi upp í þriðja sætið, en hann var aftur seldur í Bandaríkjunum í fyrra. Þessi kröftuga aukning varð til þess að Hyundai Tucson féll niður í fjórða sæti.

Í fimmta sæti er kínverski jeppinn Haval H6 sem er lítt eða ekkert þekktur enn sem komið er á Vesturlöndum. Út hefur hann verið fluttur til Ástralíu og Suður-Afríku. Sýnir velgengni Haval H6 hvað miklu varðar að ná góðri fótfestu á stærsta einstaka bílamarkaði heims, í Kína. agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: