Jeppa og pallbílasýning hjá Íslensk-Bandaríska

Bílaumboðið Íslensk-Bandaríska mun efna til glæsilegrar jeppa og pallbílasýningar á morgun,  laugardaginn 7. apríl. 

Þar verða frumsýndir tveir nýir öflugir og breyttir bílar. Annars vegar Jeep Grand Cherokee með 33” breytingu og hins vegar RAM 3500 pallbíll með 40” breytingu. Um breytingarnar sá þjónustuverkstæði Ís-Band. 

„Jeep Grand Cherokee með 33” breytingu er með 2 sentímetra upphækkunarklossum og er jafnvægisstöngum og stilliörmum fyrir loftpúðafjöðrunina breytt í samræmi við upphækkunina.  Fjöðrunin er svo stillt í sömu stöðu og upprunalega stillingin er frá framleiðanda til að viðhalda einstökum aksturseiginleikum og torfærugetu jeppans,“ segir í tilkynningu. 

RAM 3500 pallbíllinn er með 3” upphækkunarsetti að framan og aftan frá banadríska framleiðandanum AEV sem Ís-Band er umboðaðili fyrir hér á landi.  Upphækkunarklossar eru undir fjöðrum og loftpúðum að aftan.  Framhásing er færð fram um 1” og skipt er um þverstífu og öllum festingum breytt til að viðhalda aksturseiginleikum bílsins, ásamt því að hefta  ekki fjöðrun þegar ekið er í torfærum.  Bilstein 5100 demparar eru að framan og aftan sem eru sérhannaðir fyrir RAM til að veita hámarksafköst við krefjandi aðstæður.  Á bílnum eru brettakantar frá AEV, ný innri bretti eru sett í, auk þess sem nýr framstuðari frá AEV er á bílnum.

Á sýningunni verða einnig sýndir nýjustu jepparnir frá Jeep, Renegade, Compass, Cherokee og Grand Cherokee, auk þess sem boðið verður upp á reynsluakstur.  Einnig verða pallbílar frá RAM til sýnis og er reynsluakstur í boði. Sýningin verður opin frá kl. 12-16 í sýningarsal Ís-Band að Þverholti 6 í Mosfellsbæ.

mbl.is