„Tómur“ tankur dugar mislangt

Þótt tankur sýnist tómur má áfram aka nokkra tugi kílómetra ...
Þótt tankur sýnist tómur má áfram aka nokkra tugi kílómetra ef þarf til að fá nýja tankfylli.

Flestum ökumönnum er meinilla við að sjá aðvörunarljósið um að bensíntankurinn sé að tæmast birtast á ferð. Ætti maður að stoppa á næstu stöð eða þeirri þarnæstu?

Þótt ljósið sé til aðvörunar þá er það mjög breytilegt eftir bílmódelum hversu lengi má enn aka eftir að það kviknar. Sennilega hafa flestir tekið áhættuna og ekið áfram þótt ljósið logi.

Hve langt kemstu á ljósinu?

Aðalatriðið er að komast heill heim en varasamt getur verið að teygja mjög á ferðalaginu án þess að tanka eftir að það kviknar. Í versta falli þurfa menn þá að leggja bílnum við vegarkant þorni tankurinn alveg.

En hversu langt ætli menn komist á bíl sínum eftir að viðvörunin fyrst birtist? Við því er ekkert eitt svar. Það er breytilegt eftir bílum en algengt er að þá séu 5-10 lítrar eftir á tanknum. Eða sem duga ætti til 70-120 kílómetra aksturs. Má því segja að það sé ekki skollið á neitt bráðatilvik þegar ljósið kviknar.

Til að komast að því nákvæmlega hvað eftir er á tanknum nægir að fletta upp í handbók bifreiðarinnar.

Í nýrri bílum er kominn nýr búnaður er auðveldar ökumanni að meta stöðuna með tilliti til áframhaldandi aksturs. Birtir bíltölvan í mælaborðinu upplýsingar sem segja til um hvert drægið er eftir að ljósið hefur kviknað. Oftast birtist mynd af bensíntanki og við hlið hans kílómetrarnir sem bensínið enn dugar.

agas@mbl.is