Mikilvægt að auka drægi og fjölga rafbílum

Rafbílar í röðum. Renault Zoe er mest seldi rafbíllinn í ...
Rafbílar í röðum. Renault Zoe er mest seldi rafbíllinn í Evrópu.

Samkvæmt franskri rannsókn Evrópsku loftslagsstofnunarinnar og aðila í bílaiðnaði hafa 100% rafbílar tvisvar til þrisvar sinnum minni útblástur gróðurhúsalofttegunda í för með sér á líftíma sínum en dísil- og bensínbílar, jafnvel að teknu tilliti til mengunar sem hlýst af framleiðslu rafhlaðanna.

Jafnframt segir að eigi Evrópulöndunum í heild að takast að uppfylla ákvæði Parísarsáttmálans í loftslagsmálum verði að leita leiða til að draga úr útblæstri samgöngukerfisins í vöru- og fólksflutningum.

Í rannsóknarskýrslunni segir einnig að mikilvægt sé að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum sem stafi frá framleiðslu rafhlaða fyrir rafbíla. Er árangursríkasta leiðin talin sú að halda áfram þróun þeirra með það að markmiði að lengja drægi þeirra enn frekar.

Skýrsluhöfundar segja að eftir því sem drægi aukist minnki hlutfall neikvæðra umhverfisáhrifa rafhlaða í stóra samhenginu. Um 40% losunar rafbíla er vegna framleiðslu rafhlaðanna og miðað við þá hröðu þróun sem eigi sér stað í rafhlöðuframleiðslu eigi að vera unnt að lækka hlutfallið í 20-25% fyrir árið 2030.

Til að draga meira úr losun gróðurhúsalofttegunda sem stafar af notkun jarðefnaeldsneytis er mikilvægt að rafbílum fjölgi, segja rannsakendur. Nú hefur Renault gert samstarfssamning við tæknifyrirtækið E-VIA FLEX-E sem hefur að markmiði að fjölga háorkuhleðslustöðvum í Suður-Evrópu sem hlaðið geta rafhlöður á styttri tíma en núverandi hleðslustöðvar sem almenningur hefur aðgang að á opinberum stöðum. Markmiðið er að auðvelda frekar langferðalög á rafbílum án þess að of miklum tíma sé varið í það að hlaða rafhlöðurnar á ferðalögunum.

Til að fjölga hraðar útbreiðslu rafbíla í Evrópu er ekki eingöngu talið nauðsynlegt að fjölga hleðslustöðvunum heldur einnig að þróa stöðvar sem hlaðið geta rafhlöður bílanna á mun styttri tíma en nú þekkist þannig að langferðalög á rafbílum verði alveg jafn sjálfsögð og ferðalög á hefðbundnum bílum.

Fyrsta verkefni Renault og samstarfsaðila verður hrint í framkvæmd í lok þessa árs þegar settar verða upp nýjar fjórtán 150kW og 350kW háorkuhleðslustöðvar meðfram hraðbrautum á Ítalíu, Spáni og í Frakklandi. Kostnaður við verkefnið er um 6,9 milljónir evra. Renault Group á þegar í samstarfi við önnur tæknifyrirtæki sem komið hafa upp rúmlega 180 hleðslustöðvum í Norður-Evrópu.

agas@mbl.is