Ford ætlar sér fram úr Toyota

Leikarinn Jim Belushi sviptir hulunni af Ford Transit Connect á ...
Leikarinn Jim Belushi sviptir hulunni af Ford Transit Connect á bílasýningunni í Chicago í febrúar sl. AFP

Ford ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur. Þvert á móti hefur bandaríski bílrisinn sett sér sem markmið að taka fram úr Toyota í sölu tvinnbíla í Bandaríkjunum þegar á árinu 2021.

Ford er nú þegar tiltölulega öflugur keppinautur í flokki tvinnbíla í Bandaríkjunum, að sögn blaðsins The Wall Street Journal. Forstjóranum Jim Hacket finnst lítið hafa farið fyrir þeirri stöðu og fer hann ekkert dult með væntingar sínar í blaðinu um það hvert Ford stefnir.

Hann segir fyrirtækið beita sér kerfisbundið og markvisst að því að auka eftirspurn eftir tvinnbílum. Meðal annars með því að bjóða upp á tvinnútgáfur af vinsælustu bílamódelum Ford.

Þá er Ford með áform um að koma á markað árið 2020 með jeppa sem hannaður verður undir áhrifum frá sportbílnum Mustang. Það er talið munu styrkja stöðu Ford mjög í keppni við bílsmiði sem Tesla, Audi og Jaguar.

Hin nýja stefna Ford varðandi tvinnbíla er meðal annars afleiðing af mikilli stefnumótunarvinnu bandaríska risans. Hefur hann setið undir ágjöf og þurft að innkalla bíla í Bandaríkjunum vegna öryggisgalla. Þá hefur hann tapað hlutdeild á kínverska bílamarkaðinum.

agas@mbl.is