Hleðslustöðvar bæta þjónustu við gesti og gleðja starfsmenn

„Snjallsímaforritið okkar tengist hleðslustöðvakerfinu í rauntíma og geta rafbílaeigendur notað …
„Snjallsímaforritið okkar tengist hleðslustöðvakerfinu í rauntíma og geta rafbílaeigendur notað símann til að hefja hleðslu á aðeins þremur sekúndum,“ segir Sigurður. Hann segir upplagt að bjóða upp á hleðslu til að laða að viðskiptavini. mbl.is/RAX

Starfsemi Ísorku hefur vaxið hratt undanfarin misseri og hljóðið gott í Sigurði Ástgeirssyni, framkvæmdastjóra fyrirtækisins: „Við erum núna að leggja lokahönd á stórt verkefni fyrir Reykjavíkurborg þar sem hleðslustöðvar verða settar upp í bílastæðahúsum borgarinnar. Þegar stöðvarnar verða komnar í notkun, seinna í maímánuði, verður Ísorka með stærsta hleðslukerfið á landinu,“ segir hann.

Ísorka býður upp á fullkomnar rafhleðslulausnir fyrir heimili, fyrirtæki og stofnanir. Sigurður segir mikla vinnu hafa farið í að gera kerfið notendavænt og kveðst hann geta fullyrt að hleðslulausnir Ísorku séu þær fullkomnustu hér á landi, og þó að víðar væri leitað. „Með okkar kerfi geta fyrirtæki t.d. sett upp hleðslustöð og tekið gjald fyrir rafmagnið með sáralítilli fyrirhöfn. Við tengjum hleðslustöðvarnar við staðgreiðslugáttir og skráum þær inn á kortagrunna ef þess er óskað svo að eigendur rafmagns- og tengiltvinnbíla eigi auðvelt með að finna stöðvarnar í GPS-kerfum,“ útskýrir Sigurður. „Snjallsímaforritið okkar tengist hleðslustöðvakerfinu í rauntíma og geta rafbílaeigendur notað símann til að hefja hleðslu á aðeins þremur sekúndum, auk þess að þeir sjá á korti hvort stöðvar eru í notkun, lausar eða bilaðar. Er meira að segja hægt að taka hraðhleðslustöð frá í tiltekinn tíma svo að ekki þurfi að bíða við stöðina eftir að annar notandi klári að hlaða bílinn sinn.“

Eykur ánægju starfsmanna

Að sögn Sigurðar er mikill áhugi á því meðal íslenskra fyrirtækja að setja upp hleðslustöðvar, ýmist til að hlaða eigin bílaflota, eða til að leyfa starfsmönnum og gestum að stinga bílunum sínum í samband. Sigurður segir stjórnendur stundum hafa áhyggjur af að mikið umstang og kostnaður kunni að fylgja hleðslustöðvunum en Ísorka býður upp á þægilega heildarlausn sem heldur kostnaði í lágmarki og tryggir að utanumhald hleðslustöðvanna bætist ekki við aðrar daglegar skyldur starfsmanna. „Það fylgir því ákveðinn kostnaður að setja stöðvarnar upp, en hægt er að búa til rekstrarmódel eftir óskum hvers fyrirtækis til að hafa tekjur af raforkusölunni. Ég held samt að það sé rangt að líta þannig á að notkun hleðslustöðvanna eigi að verða að nýrri tekjulind, heldur á frekar að sjá þær sem leið til að bæta þjónustu við gesti og auka ánægju starfsmanna.“

Bendir Sigurður á að eftir því sem fleiri aka um á rafbílum, því meiri ávinningur sé af því fyrir vinnustaði að setja upp hleðslustöðvar. „Eigendur rafbíla kunna vel að meta það að geta hlaðið bílinn sinn yfir vinnudaginn og held ég að það sé óhætt að fullyrða að starfsfólk á rafbílum hugsi sig tvisvar um áður en það færir sig frá vinnustað sem býður upp á hleðslustöð yfir til staðar þar sem hleðslustöðina vantar.“

Viðskiptavinum þykir líka hentugt að fá hleðslu á meðan þeir heimsækja fyrirtæki og stofnanir. „Á stöðum þar sem fólk stoppar í hálftíma til klukkutíma getur verið sterkur leikur að setja upp hleðslustöð. Þetta geta verið staðir eins og verslunarmiðstöðvar, stórmarkaðir, líkamsræktarstöðvar og kvikmyndahús, og hjálpar til að laða að ákveðinn hóp viðskiptavina. Hleðslustöðvarnar stuðla að því að fólk stoppar lengur og er þá vonandi að versla meira á meðan,“ segir Sigurður. „Svo eru rafbílaeigendur vísir til, ef valið stendur t.d. um að kaupa í matinn á tveimur stöðum, að velja frekar þá verslun þar sem hægt er að hlaða bílinn.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: