Mikilvægt að stýra álaginu á stöðvarnar

Rahleðslustöðvar í Kringlunni frá Ísorku.
Rahleðslustöðvar í Kringlunni frá Ísorku.

Yfirleitt þarf ekki að ráðast í miklar framkvæmdir til að setja upp hleðslustöð og hjá fyrirtækjum er alla jafna öflug raftenging sem ræður við það þótt settar séu upp nokkrar stöðvar.

„Það er samt vissara að koma upp búnaði sem stýrir álaginu svo að ef margir rafbílar eru í sambandi þá fari raforkunotkunin ekki yfir það sem kerfið ræður við. Getur álagsstýringin t.d. beint mismiklu afli til hverrar stöðvar, þannig að sá sem tengdist fyrst fái hröðustu hleðsluna en þeir sem á eftir koma fái minni hleðslu. Þegar fyrsti bíllinn er fullhlaðinn er meiri orku beint á þann næsta, og þannig koll af kolli. Á venjulegum vinnustað þýðir þetta að í lok vinnudags ættu allir að geta haldið af stað heim á leið með nægilega hleðslu á bílunum sínum.“

Kostnaðurinn við hleðslustöðvarnar er breytilegur eftir því hvers konar stöðvar verða fyrir valinu og hvar þeim er komið fyrir. Sigurður Ástgeirsson hjá Ísorku segir ódýrast ef hægt er að festa stöðvarnar á vegg. „Það er vitaskuld aðeins í boði þar sem ekki þarf að vera gönguleið á milli bílanna og veggsins. Að festa stöðvarnar á vegg þýðir að ekki er þörf á neinu jarðraski og rafmagnskaplana má leggja meðfram veggnum.“

Hjá fyrirtækjum og stofnunum er algengast að velja stöðvar sem hlaðið geta tvo bíla í einu og eru þá tekin frá tvö stæði fyrir hverja hleðslustöð. „Við hvetjum til þess að þessi stæði séu merkt mjög greinilega og ef stöðin er fest á vegg dugar að mála vegginn. Stundum þarf að láta það boð út ganga að stæðin séu bara fyrir bíla sem verið er að hlaða því sumir rafbílaeigendur halda að hleðslustæðin séu einfaldlega prinsessustæði fyrir alla sem aka á rafbíl.“

Að setja upp hleðlustöð tekur ekki langan tíma. Sigurður segir sérfræðinga Ísorku byrja á að skoða aðstæður og gera tilboð, og oft sé það bara dagsverk að koma hleðslustöðvunum fyrir. Ef reynist þörf á fleiri hleðslustöðvum er hægur vandi að bæta nýjum við. „En við vitum að þegar mikið er sótt í hleðslustöðvarnar deila starfsmenn þeim bróðurlega með sér og skiptast t.d. á bílastæðum í hádegishléinu. Það er nú einu sinni þannig að þar sem tveir rafbílaeigendur hittast verða þeir sjálfkrafa vinir.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: