Umhverfisvænir fyrir þéttbýlisakstur

Kraftvélar buðu nýverið til hittings í húsakynnum sínum við Dalveg í Kópavogi þar sem tilefnið var frumsýning og um leið formleg afhending á fyrsta eintakinu af Iveco Daily Electric, fyrsta 100% rafmagnsbílnum í flokki stærri sendibíla.

Við sama tækifæri kynnti fyrirtækið til leiks sendibíl ársins, Iveco Daily Blue Power en línan inniheldur þrjá aflgjafa framtíðarinnar, eins og þeir eru kynntir til sögunnar; Daily er sem fyrr segir 100% rafmagnsbíll, Daily Hi-Matic er metanbíll og Daily dísil Euro 6 RDE Ready er díselbíll.

Hugsaður fyrir þéttbýlið

„Þessi vörulína er fyrst og fremst hugsuð til notkunar í þéttbýli til að draga þar úr mengun,“ útskýrir Ívar Þór Sigþórsson, sölustjóri atvinnubifreiða hjá Kraftvélum. „Víða í stórborgum erlendis hafa nú þegar verið settar takmarkanir á notkun atvinnubíla innan borgarmarkanna til að stemma stigu við útblástursmengun og hér er komin vörulína sem nýtist fullkomlega í hvaða þéttbýli sem vera skal því bílarnir menga ekki eins og aðrir atvinnubílar sem brenna hefðbundnu jarðefnaeldsneyti.“ Ívar bætir því við að markmiðið hjá Iveco með nýju línunni hafi verið að bjóða upp á atvinnubíla sem standast allar kröfur fyrirtækja til bíla sinna, en koma um leið til móts við ströngustu umhverfisviðmið.

„Það er ennfremur gaman að geta þess að árið 2015 var Iveco Daily valinn sendibíll ársins, og þá með þessu sama útliti, og nú þremur árum seinna hreppir hann aftur sömu verðlaunin. Það má því halda því fram með góðu móti að þeir séu að gera eitthvað rétt,“ bætir Ívar við. Umrædd verðlaun eru á alþjóðavísu kosin af dómnefnd bílablaðamanna frá 25 löndum.

Svara kalli nútímans

Aðspurður segir Ívar að Daily rafmagnsbíllinn sé með allt að 200 km. raundrægni og 2 tíma hraðhleðslumöguleika. Koltvísýringsútblásturinn er vitaskuld 0%.

„Daily Blue Power metan er svo með allt að 400 kílómetra drægni með HI-Matic 8 gíra sjálfskiptingu og gefur dísilvélum ekkert eftir varðandi afl ásamt því að vera hljóðlátari heldur en hefðbundin dísilvél og það sem meira er, metan losar 95% minna af CO2 heldur en dísilbíll,“segir Ívar.

Loks eru Daily dísil Euro6 RDE Ready dísilbílarnir tilbúnir fyrir LCV mengunarstaðla þá er taka gildi í Evrópu árið 2020. „Þeir eru með allt að 7% lægri eldsneytiseyðslu en núverandi dísilbílar og leggja línurnar fyrir komandi framtíð,“ bendir Ívar á.

Það var Veitur ohf sem tóku á móti fyrsta Daily Blue Power Electric 100% rafmagnsbílnum. „Veitur ohf er dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur sem hafa sýnt frumkvæði meðal íslenskra fyrirtækja í að taka í notkun umhverfisvæna atvinnubíla,“ bendir Ívar á að lokum.

jonagnar@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »