Olíudreifing fær Actros vörubíl

Þeir Erlingur Jónsson og Heimir Hoffritz bílstjóri komu og veittu …
Þeir Erlingur Jónsson og Heimir Hoffritz bílstjóri komu og veittu bílnum viðtöku hjá Atvinnubílum Öskju á Fosshálsi á dögunum. Með þeim á myndinni er Eiríkur Þór Eiríksson, söluráðgjafi vörubíla hjá Öskju.

Fyrsta Mercedes-Benz Actros bifreiðin af fjórum sem Olíudreifing hefur fest kaup á hjá Öskju var afhentur félaginu á dögunum. Bifreiðin er með tankaábyggingu frá Willig í Þýskalandi og vel búinn til að sinna verkefnum sem Olíudreifing sinnir í eldsneytisflutningum á degi hverjum. 

„Það ríkir mikil ánægja og eftirvænting af okkar hálfu með að fá bíla af þessari tegund í fjölbreyttan flota okkar. Við höfum átt nokkrar bifreiðar þessara tegundar í gegnum tíðina og erum þess full vissir að við erum að fá vandaða og góða bíla enda eru þeir framleiddir undir merkjum eins virtasta bifreiðaframleiðanda heimsins. Jafnframt væntum við góðs samstarfs og þjónustu frá Öskju enda er góð þjónusta mikilvæg í rekstri ökutækja og ekki síst sérhæfðra atvinnutækja eins og á við um í tilfelli Olíudreifingar,“ segir Hörður Gunnarsson, framkvæmdastjóri Olíudreifingar, í tilkynningu.

Megin starfsemi Olíudreifingar er dreifing og birgðahald á fljótandi eldsneyti ásamt því að veita sérhæfða þjónustu við olíubirgðastöðvar og bensínstöðvar.  Starfsmenn félagsins eru 140 talsins á 12 starfsstöðvum víðsvegar um landið. Félagið á og rekur meðal annars um 45 tankbíla, vörubíla og dráttarbíla auk um 50 smærri bíla.


mbl.is