Bugatti Type 57SC Atlantic bestur þeirra bestu

Eðalvagn af gerðinni Bugatti Type 57SC Atlantic hefur nýlega verið valinn bestur hinna best hönnuðu fornbíla sögunnar.

Svonefnd Peninsula Classics Best of the Best Award féll þessum 82 ára gamla bíl í skaut, en viðurkenningin var nú veitt í þriðja sinn.

Bugatti Type 57SC Atlantic verðlaunabíllinn er í sameiginlegri eigu bílasafnsins Mullin Automotive Museum í bænum Oxnard í Kaliforníu í Bandaríkjunum og hjóna að nafni Rob og Melani Walton.

Til álita að þessu sinni komu átta bílar er unnið hafa hönnunarkeppni á frægum fornbílasýningum víða um heim. Bugatti Type 57SC Atlantic varð hlutskarpastur á hinni árlegu fornbílasýningu Chantilly Arts & Elegance í Frakklandi í fyrra.
 
„Bugatti Type 57SC Atlantic er krúnudjásn bílanna. Þessi bíll með sínar fögru og hrífandi línur  og kraft sem átti sér ekki líkan var meistarastykki Jean Bugatti. Hann er og æðsta tákn Bugatti-arfleiðarinnar með óviðjafnanlegri getu og sinni fallegu hönnun,“ sagði Julius Kruta, yfirmaður Bugattisafnsins í tilefni viðurkenningarinnar.

Bugatti varð hlutskarpastur einstakra eðalbíla, en keppinautar hans um verðlaunin að þessu sinni voru:

• 1939 Alfa Romeo 8C 2900B Spider
• 1951 Ferrari 212 Export Cabriolet Vignale
• 1929 Mercedes-Benz S Roadster
• 1957 Alfa Romeo Giulietta Sprint Speciale Prototipo
• 1957 Ferrari 250 GT Cabriolet
• 1964 ATS 2500 GTS Coupé Allemano
• 1933/35 Lancia Astura Aerodinamica Coupé

PeterMullin, stofnandi og aðalstjórnandi Mullin-safnsins sagði Atlantic-bílinn táknrænan fyrir aðdáun sína á stílfegurð franskra bíla, en bíllinn er við hátíðleg tækifæri nefndur MonaLisa meðal bílasafnara. „Bíllinn er sannkallað listaverk,“ sagði hann.

mbl.is