Sex sinnum hættulegra að senda textaskilaboð en aka ölvaður

Samkvæmt bandarískum mælingum tengist fjórða hvert umferðarslys snjallsímanotkun, enda truflar ...
Samkvæmt bandarískum mælingum tengist fjórða hvert umferðarslys snjallsímanotkun, enda truflar síminn einbeitingu ökumanns. mbl/Arnþór Birkisson

Í byrjun maí tók gildi ný reglugerð um sektir og önnur viðurlög vegna brota á umferðarlögum. Hafa ýmsar sektir verið hækkaðar og t.d. geta þeir sem aka um á nagladekkjum yfir sumartímann núna átt von á 80.000 kr sekt í stað 20.000 kr áður, og í fyrsta skipti að hjólreiðamenn eiga á hættu að fá 20.000 kr sekt fyrir að hjóla á móti rauðu ljósi.

Sérstaka athygli hefur vakið að sektin fyrir að nota farsíma í akstri án handfrjáls búnaðar hækkar úr 5.000 kr upp í 40.000 kr. Nær sektin jafnt til þeirra sem tala í símann eða nota með öðrum hætti, s.s. til að skoða samfélagsmiðla eða senda textaskeyti.

Björgvin Þór Guðnason, formaður Ökukennarafélags Íslands, er ánægður með að sektir vegna farsímanotkunar hafi hækkað enda alvarlegt vandamál hve margir ökumenn eru með athyglina við símann frekar en umferðina. Notkun farsíma í akstri hafi átt þátt í banaslysum og snjallsímarnir valdi því að sumir eru annars hugar á bak við stýrið. „Ekki er nóg með að fólk sé að tala í símann heldur er það jafnvel að taka augun af veginum til að horfa á símaskjáinn og með aðra hönd á síma en hina á stýri.“

Prófa hvernig athyglin hverfur

Að sögn Björgvins berst talið oft að snjallsímanotkun í ökunáminu: „Í verklegum ökutímum eru dæmin allt í kringum okkur þar sem bílstjórar sjást akandi með símann á lofti. Í bóklegu ökunámi er líka fjallað vandlega um símanotkun og í Ökuskóla 3 er sérstaklega tekið á akstri og símanotkun með því að láta nemendur leysa tiltekið verkefni og á sama tíma senda SMS. Þar upplifa þeir hvernig athyglin á verkefninu hverfur þegar verið er að nota símann.“

Það er ekki bara unga fólkið sem á erfitt með að láta símann frá sér á meðan það ekur. Ef fylgst er með bílunum sem bíða á rauðu ljósi á götum Reykjavíkur þá má sjá að margir eru með augun á kjöltunni, og með kunnuglegan bláan bjarma á andlitinu frá snjallsímaskjánum. Björgvin segir að það geti vissulega verið freistandi fyrir suma ökumenn að nota símann en fólk verði að fara varlega og láta símann í friði ef það vill ekki hætta á slys eða haá sekt. „Þeir sem eiga erfitt með að láta símann vera gætu þurft að grípa til þess ráðs að geyma hann utan seilingar. Það getur líka hjálpað að slökkva á hringingunni svo að síminn trufli ekki aksturinn ef einhver hringir á meðan eða sendir skilaboð.“

Tölfræði yfir slys vegna farsímanotkunar liggur ekki fyrir hér á landi, en þeir sem halda að síminn skerði ekki getu þeirra til aksturs ættu að kynna sér bandarískar rannsóknir sem benda til þess að eitt af hverjum fjórum bílsslysum vestanhafs stafi af því að ökumaður var að skrifa eða lesa textaskilaboð á símanum sínum. Raunar bendir flest til að það sé sex sinnum hættulegra að skrifa textaskilaboð undir stýri en að aka undir áhrifum áfengis.

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »