Gæti verið skynsamlegast að skattleggja notkunina

Vegaframkvæmdir hafa fengið að sitja á hakanum og víða komið ...
Vegaframkvæmdir hafa fengið að sitja á hakanum og víða komið í óefni, jafnt innan- sem utanbæjar. mbl.is/​Hari

Íslensk stjórnvöld leggja há gjöld á ökutæki og eldsneyti og var fyrir nokkrum árum reiknað út að bíleigendur legðu hinu opinbera til liðlega 70 milljarða króna árlega í gegnum ýmiskonar gjöld og greiðslur.

Aðspurður hvort hann myndi vilja breyta kerfinu segir Özur að æskilegt væri að hafa gjaldaumhverfi bíla sem einfaldast og gagnsæjast. „Það er fullkomlega eðlilegt að einhver gjöld séu tekin af notkun bíla til að halda vegakerfinu í lagi, en þá er líka til mikils að vinna ef gjaldtakan er þannig að þeir borgi meira sem nota vegina mest og menga mest,“ segir Özur og tilgreinir eldsneytisskatt eða gps-tengda gjaldmæla sem mögulegar útfærslur. „Með því að láta gjaldheimtuna byggjast meira á notkun myndum við líka ná til allra ferðamannanna sem koma til landsins og greiða í dag sáralítið fyrir afnot af vegakerfinu.“

Segir Özur að einkabíllinn verði líka að njóta sanngirni þegar umhverfisáhrif eru skoðuð. „Umræðan um koltvísýringsmengun á það til að beinast nær alfarið að bílum, sem þó hafa á undanförnum áratugum batnað til muna og bæði nota töluvert minna eldsneyti og menga mun minna en áður. Ef við skoðum síðan heildarlosunina sjáum við að ökutæki mynda aðeins örlítið brot af heildinni. Samt hika stjórnmálamenn ekki við að leggja til að skattleggja bifreiðir upp í hæstu hæðir í nafni umhverfisverndar, en gefa öðrum mengunarvöldum fríspil.“